Óundirbúin fyrirspurn. Hefur verið rætt við börnin á biðlistanum?

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Spurningu minni er beint til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra sem fulltrúa barnamála í ríkisstjórninni. Biðlistar barna eftir fagþjónustu hjá stofnunum ríkisins eins og Þroska- og hegðunarstöð, Greiningar- og ráðgjafarstöð og BUGL eru í sögulegu hámarki. Meðalbiðtíminn er frá einu og upp í tvö ár eftir þeirri þjónustu sem um ræðir. Þúsundir barna eyða stórum hluta æsku sinnar á biðlistum. Sem dæmi biðu í lok árs 2021 77 börn eftir göngudeildarþjónustu á BUGL, 39 börn eftir transteymi og 17 börn eftir átröskunarteymi. 95 af þessum börnum hafa beðið lengur en þrjá mánuði. Rannsóknir og lærðar skýrslur sýna niðurstöður um vaxandi vanlíðan barna. Það er mikið áhyggjuefni. Vaxandi vanlíðan barna var áhyggjuefni fyrir Covid en hefur nú versnað enn frekar.

Spurningin er þessi: Hefur hæstv. mennta- og barnamálaráðherra látið kanna hvernig börnin á biðlistunum er stödd tilfinninga- og félagslega, sérstaklega þau sem hafa beðið eftir fagþjónustu í marga mánuði eða jafnvel ár? Hefur verið rætt við börnin sjálf sem eru á biðlistunum og foreldra þeirra um hvernig þau eru að höndla biðina? Ef ekki, hefur ráðherra áhuga á að ráðast í slíka úttekt? Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að vandi barna sem ekki fá viðhlítandi sálfræði- og geðlæknisþjónustu er líklegur til að vaxa. Barn sem þarf að bíða lengi eftir nauðsynlegri þjónustu vegna andlegrar vanlíðunar er í mun meiri áhættu með að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða og sjálfsvígshugsana.

Andsvar við ráðherra

Virðulegi forseti. Spurningin varðaði það hvort haft hafi verið samtal við börnin á biðlistunum og foreldra þeirra. Enn og aftur er minnt á það að á meðan á langri bið stendur getur mál sem flokkast að þoli bið, en það er einn liður í flokkunarkerfi, orðið að bráðamáli á skammri stundu, einni sekúndu. Fullvíst er að þegar mál er orðið að bráðamáli hefur vandinn átt sér aðdraganda og fengið að krauma á meðan bið eftir þjónustu stendur. Bið getur kostað líf og hefur jafnvel gert það. Þetta er spurningin um að börnin og foreldrar þeirra upplifi sig ekki sem eitthvert númer, einhverja tölu á biðlista, biðlista hundruð þúsunda barna í gegnum árin. Biðlistavandinn er rótgróið mein hjá þessari ríkisstjórn og þeirri sem áður var. Biðlistar eru líka í borginni en það á sér annan vettvang að ræða um það.