Ræða flutt í borgarstjórn 2. mars um atvinnumál eldri borgara í Reykjavík

Atvinnumál eldri borgara í Reykjavík, umræða í borgarstjórn að beiðni Flokks fólksins

Staða eldri borgara á vinumarkaði er ekki sem skyldi. Helsta meinið er að þeir eiga ekki auðvelt með að halda vinnunni sinni. Þeir fá laun frá samfélaginu en kerfið er þannig að ef þeir vilja auka tekjur sínar með vinnu skerðir það launin frá samfélaginu. Alþekkt er hugtakið króna á móti krónu skerðing. Það hindrar áframhaldandi atvinnuþátttöku eldri borgara.

Staðan er í stuttu máli þannig að atvinnutekjur skerða verulega lífeyrisréttindi eldri borgara. Lífeyrir skerðist um 45% af atvinnutekjum umfram 100.000 kr. á mánuði
Þá eru atvinnutekjur auk þess skattlagðar og því er ávinningur lífeyrisþega af atvinnu nánast enginn.

Króna á móti krónu skerðingin er ef til vill ekki svo hagstæð fyrir samfélagið sem halda mætti: Skerðingin þykir flestum afa ósanngjörn.

Í greiningu Capacent um Fjárhagsleg áhrif tekjutengingar lífeyris stendur þetta:

Hreinn kostnaður af afnámi tekjutengingar lífeyris vegna atvinnutekna er 2.1 ma. kr.
En á móti koma tekjur. Tekjur sveitarfélaga munu aukast bæði vegna útsvars af hækkun lífeyris Tryggingastofnunnar og vegna hækkunar tekna einstaklinga. Kostnaður við rekstur kerfisins mun lækka vegna minna eftirlits og samskipta vegna þess. Aukin virkni eldri borgara bætir heilsu, getur dregið úr heilbrigðisútgjöldum.
Þetta segir í raun að þessar skerðingar séu bara tímasóun.

Árið 2016 kom út skýrsla með úrvinnslu tillagna sem komu á ársfundi verkefnisins um aldursvænar borgir sem haldin var þann 25. nóvember 2015. Ein tillagan var um  atvinnuþátttöku eldri borgara. (tillaga 14).

Lagt var til að:
Tímabundnar ráðningar eldri borgara yrðu prófaðar á ákveðnum vinnustöðum í tilraunaskyni. Fundin yrðu störf sem henta.
Skoða leiðir til að bjóða upp á tímabundnar ráðningar eftir ákveðinn aldur sem þyrftu að endurnýjast – t.d. í samræmi við endurnýjun ökuskírteina.
Skoða leiðir til að bjóða eldri borgurum upp á verktakavinnu við  ákveðin verkefni.
Skoða leiðir til að Reykjavíkurborg bjóði upp á meiri sveigjanleika í starfslokum starfmanna sinna.

Fátt hefur heyrst um þessa tillögu síðan, alla vega ekki hér í borgarstjórn á þessu kjörtímabili

Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kveða á um að almennt skuli segja upp störfum þegar ríkisstarfsmaður nær 70 ára aldri.

Engin sambærileg ákvæði eru í sveitastjórnarlögum en kjarasamningar hafa gjarnan kveðið á um slíkt svo sem að yfirmanni sé heimilt að „endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri og látið hefur af föstu starfi hjá stofnun eða fyrirtæki Reykjavíkurborgar í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris.“

Í kjarasamningi segir einnig
 Ákvörðun um ráðningu samkvæmt 9.10.2 í kjarasamningum skal tekin af borgarstjóra að fenginni umsögn yfirmanns viðkomandi stofnunar.

Þetta minni á   bænaskjal eins og Íslendingar sendu til einvaldskonungana í Kaupmannahöfn fyrr á öldum.  Eftir að hafa farið á milli manna í embættiskerfinu lendir ákvörðum hjá borgarstjóra.

Áfram er frumskógur í kjarasamningum:

Starfsmaður, sem óskar að ráða sig til vinnu eftir 70 ára aldur samkvæmt þessum skilmálum, skal sækja um það skriflega til yfirmanns viðkomandi stofnunar með 3ja mánaða fyrirvara.

Starfsmanni skal hafa borist svar innan mánaðar frá umsókn. Sé unnt að verða við ósk starfsmanns skal ráðning gilda í allt að tvö ár til fyrstu mánaðarmóta eftir að 72 ára aldri er náð, nema annar hvor aðili segi ráðningunni upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Forstöðumaður, í samráði við sviðsstjóra, getur gert samning um starfslok við starfsmenn stofnunar. Reykjavíkurborg setur nánari reglur um við hvaða aðstæður forstöðumanni er heimilt að gera samning um starfslok og helstu efnisþætti slíks samnings

ÞVÍLíKIR VARNAGLAR, HVER NENNIR AÐ STANDA Í ÞESSU. SKILABOÐIN ERU SKÝR.
EKKI LÁTA ÞÉR DETT Í HUG AÐ VINNA EINN DAG UMFRAM SJÖTUGT. FARÐU HEIM

Einfaldara  væri  að ákvarða að ekki þurfi að hætta að vinna launavinnu við sjötugt.

Hvað getur borgarkerfið gert?
Það getur BEITT SÉR

Það getur breytt almennu viðmiði um 70 ára eftirlaunaaldur. Borgin ætti að hætta að nota aldursviðmið og leyfa þeim sem það geta og vilja að halda starfi sínu þótt þessum aldri sé náð.

Borgin ætti líka að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða afnema það  alfarið.

Fyrir þá sem vilja skipta um starf vegna aldurs, eða t.d. minnka við sig getur borgin skoðað leiðir til að bjóða upp á tímabundnar ráðningar, hlutastarf eða verktakavinnu við  ákveðin verkefni. Allt sem hentar eldri borgurum og styrkir atvinnulífið. Eldri borgarar búa yfir mikilli reynslu og þekkingu sem getur nýst áfram. Þótt fólk verði sjötugt þýðir ekki að heilastarfsemi þess stöðvist. Í dag er fólk um 70 ára aldur í betri stöðu en fyrir áratugum. Heilsan er betri er áður var.

Borgin ætti að vera fremst í flokki með öll störf í borginni og bjóða upp á  sveigjanleika þegar komið er að starfslokum. Reykjavík sem stærsta sveitarfélagið á að vera fyrirmynd annarra sveitarfélaga og leiðandi þegar kemur að breytingum til bóta sem lúta að mannréttindum og jafnrétti.

Samhliða þarf að afnema krónu á móti krónu skerðinguna og hætta að skerða lífeyri vegna vinnutekna, með svo grófum hætti. Gengið hefur verið allt of langt í okkar samfélagi að meina fólki að vinna þegar það nær ákveðnum aldri.  Víða í Evrópu hefur fólk rétt til að vinna eins lengi og það vill. Iðulega er kallað eftir störfum fólks þótt það verði sjötugt. Þetta ætti að vera valkostur umfram allt.

Fólk er nauðbeygt til að hætta að vinna 70 ára sem eru aldursfordómar og jafnvel brot á mannréttindum að skikka fólk til að hætta störfum þegar það vill fátt annað gera en að halda áfram í vinnu sinni. Það eru líka aldursfordómar að gefa fólki ekki tækifæri vegna þess að það sé ekki lengur ungt, til dæmis að leyfa því ekki að vinna

Hvað eru aldursfordómar?

Fordómar eru skoðanir sem ekki eru byggðar á þekkingu. Aldursfordómar eru fordómar sem beinast að aldri fólks. Dæmi um aldursfordóma er að segja að flestir aldraðir séu sérvitrir eða að allir aldraðir séu heilsulausir.. Lesa má meira um aldursfordóma á Vísindavefnum.)

Ábyrgð borgarinnar er mikil en notuð eru öll tækifæri til að skerða. Það má sjá þegar reglur um fjárhagsaðstoð eru skoðaðar. Þar er króna á móti krónu skerðing

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er ekki sambærileg almannatryggingakerfinu þess vegna getur Reykjavík aukið við fjárhagsaðstoð eða breyti reglunum þannig að fjárhagsaðstoð skerðist ekki krónu móti krónu. Lög um félagsþjónustu hafa að geyma ákvæði um lágmarksskyldur sveitarfélaga en takmarka ekki hve mikið þau mega gera umfram þær lágmarksskyldur.

Borgin getur gert það sem hún vill í þessu, byrjað að sýna gott fordæmi með því að afnema skerðingar í reglum um fjárhagsaðstoð enda þótt fáir eldri  borgarar séu á fjárhagsaðstoð núna

Lokaorð

Flokkur fólksins berst fyrir rétti og frelsi fólks til að vinna eins lengi og það vill.

Flokkur fólksins á þingi hefur barist gegn því að aldraðir séu þvingaðir til að láta af störfum og hefur einnig flutt frumvarp um afnám skerðinga lífeyris vegna atvinnutekna

Þetta mál varðar okkur öll og er borgin ekki undanþegin. Sumir viljað hætta áður en  „70 ára“ markinu er náð, en aðrir vilja vinna lengur og þarf að koma til móts við þá.  Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Núverandi reglur eru hamlandi fyrir heilsuhraust fólk sem er á góðum aldrei. Hér er kallað eftir breytingu þannig að hætt verði að gera fólk óvirkt á atvinnumarkaði þegar það verður sjötugt ýmist með því að leyfa því að vinna áfram vinnu sína eða fyrir þá sem vilja breyta t.d.  minnka við sig eða skipta um starf, þá finna aðrar leiðir. Borgin sem stærst sveitarfélaga á að vera leiðandi hér, að afnema eldgamlar og úrelt ákvæði. Það hefði verið tækifæri t.d. að gera skurk í þessum málum í kjarasamningi. Þvinguð starfslok eru ekki til góðs, valda oft kvíða og þunglyndi meðal eldra fólks. Fólk má  ekki glata réttindum sínum við að halda áfram störfum eftir sjötugt. Þetta er allt spurning um val, þetta er jafnréttismál, mannréttindamál, þetta er eitthvað sem fólk á að ráða sjálft.

Látið af forræðishyggju, þessari sem annarri.