Skipulags- og samgönguráð 1. september 2021

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Laugavegur í 9 skrefum, kynning:

Flestum hugnast göngugötur sem hluti af borgarstemningu þar sem þær eiga við en þær mega þó ekki vera á kostnað aðgengis og umfram allt þarf að skipuleggja þær í sátt og samlyndi við borgarbúa, íbúa í nágrenni og hagaðila. Aðgengi er sagt vera fyrir alla en það er ekki rétt sbr. kanta og kantsteina og óslétta fleti sem eru víða í göngugötum. Aðgengi er erfitt fyrir þá sem nota hjálpartæki, hjólastóla og hækjur. Taka má undir að skreytingar eru fínar og ekkert er yfir lýsingu, blómum eða bekkjum að kvarta. Þó eru áhyggjur af því að sjónskertir detti um allt þetta götuskraut.

Hvað sem öllum 9 skrefum Laugavegsins líður þá stendur eftir sú staðreynd að svæðið sem um ræðir er einsleitara en áður var hvað varðar verslun. Tugir verslana hafa flúið af þeim götum sem nú eru göngugötur. Eftir eru barir og veitingahús. Verslanir fóru vegna þess að viðskipti snarminnkuðu af orsökum sem við þekkjum vel. Eldar í kringum Laugaveg og Skólavörðustíg hafa logað í meira 3 ár og loga enn. Kannski átti engin von á að svo sterkt orsakasamhengi myndi vera milli lokunar fyrir umferðar og hruns fjölda verslana. En þegar það blasti við átti að staldra við og eiga tvíhliða samtal við hagaðila.

Bókun Flokks fólksins við niðurstöðum könnunar um ferðavenjur, kynning:

Eins og þessi könnun og margar aðrar sýna þá ferðast meira en 80% Íslendinga á bíl í vinnu. Þetta hefur ekki breyst þótt skipulagsyfirvöld hafa lagt mikið á sig til að koma hlutdeild einkabílsins niður undir 50%. Hjól sem samgöngutæki eru greinilega ekki eins vinsæl og halda mætti en rafmagnshjólin kunna að vera að koma sterkt inn. Ekki er að sjá að ferðabreytingar séu í aðsigi enda þótt fólk vilji sjá fleiri möguleika. Helstu mistök þessa meirihluta er að hafa nánast stillt þessum tveimur valkostum, bíll og hjól sem andstæðum. Huga þarf að þörfum allra og hafa það að markmiði að draga úr töfum hvernig svo sem fólk kýs að koma sér milli staða. Enn er langt í borgarlínu, a.m.k. 2-3 ár í 1. áfanga. Vandinn er að það eru engar öflugar almenningssamgöngur sem val fyrir þá sem aka bíl. Notendum strætó hefur fækkað, margir farnir að nota rafhjól frekar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt forræðishyggju skipulagsyfirvalda, og hvernig reynt hefur verið að þrýsta fólki til að leggja bíl sínum, fólk sem geta e.t.v. ekki annað en verið á bíl vegna aðstæðna sinna. Þrýstiaðgerðir meirihlutans eru í formi þess að gera tilveru bílnotenda erfiða s.s. með því að leysa ekki umferðarteppur og laga ljóstastýringar.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2021, tilnefningar, trúnaðarmál

Bókun Flokks fólksins færð í trúnaðarbók.

 

Bókun Flokks fólksins við Gufunes, niðurstaða dómnefndar og álit, kynning:

Lagðar eru fram tillögur í hugmyndaleit Spildu ehf. um framtíðaruppbyggingu og skipulag 8 lóða í eigu Spildu við sjávarsíðuna í Gufunesi. Byggðin er bílalaus og allt eru þetta fjölbýlishús eins og þessu er stillt upp nú. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir fjölbreyttum íbúðagerðum þar sem nú er mikill skortur bæði á stærra húsnæði og hagkvæmu húsnæði. Hvað með atvinnutækifæri í hverfinu þar sem fólk sem er hvorki á bíl (engin bílastæði við húsin) né hjóli myndi þurfa að vinna í hverfinu og sækja alla sína þjónustu í hverfinu. Á mynd má sjá margra hæða hús, 10 hæða blokk, sem hlýtur að skerða sýn margra til fjalla þar sem háhýsið stendur nærri strandlengju. Væri ekki nær að það stæði frekar í miðju til að skerða ekki útsýni og klárlega vera lægra? Þarna er oft án efa mikil veðurhamur? Bent er á að áhrif húsa á vindstrengi er hægt að kanna í vindgöngum-líkantilraunum.

 

Bókun Flokks fólksins við Heilsuborgin Reykjavík, Lýðheilsustefna Reykjavíkurborgar til 2030:

Þau drög sem hér eru lögð fram, Heilsuborgin, Lýðheilsustefna er oflof. Betra er að vera nær jörðinni og vera raunsær. Vissulega er margt gott almennt séð á Íslandi og í sveitarfélögum þ.m.t. því stærsta. En því miður er ansi mikið sem þarf að laga og sem hefði átt að vera löngu búið að taka á. Heilsa og hamingja byggir á svo mörgu t.d. að eiga fæði, klæði og húsnæði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af börnum sínum. Nú er vaxandi fátækt, biðlistar barna eftir nauðsynlegri aðstoð í sögulegu hámarki og hefur samkvæmt nýjum könnunum andleg heilsa barna versnað.

Viðvörunarljós loga á rauðu en engin viðbrögð eru af hálfu borgarmeirihlutans. Umferðartafir valda mengun þar sem ljósastýringar eru í ólestri. Ekkert af þessu tengist góðri heilsu og hamingju. Þetta hefði fulltrúi Flokks fólksins vilja sjá ávarpað í stefnunni og hvenær ætti að bæta þessa hluti. Hver er tímalínan og hvaðan kemur fjármagnið?

Víða þarf að taka þarf til hendinni og er það alfarið á valdi meirihlutans í borgarstjórn. Góð stefna er fín byrjun en það gengur ekki að láta síðan þar við sitja.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að látið verði af birtingu nafna þeirra sem senda inn kæru eða athugasemdir til skipulagsyfirvalda:

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að látið verði. Tillagan hefur verið felld með þeim rökum að heimilt sé að birta nöfn þeirra sem senda erindi til borgarinnar. Það er jafnframt talið hluti af gagnsærri stjórnsýslu.

Fulltrúi Flokks fólksins sér þann eina tilgang með birtingu sem þessari að afhjúpa eigi nöfn þeirra sem kæra, þeirra sem skipulagsyfirvöldum finnst vera með “vesen”. Fólk hefur orðið fyrir aðkasti þar sem mál eru iðulega umdeild enda geta þau verið viðkvæm. Þótt birting nafna sé í samræmi við lög þá finnst fulltrúa Flokks fólksins þetta ósmekklegt og telur að með þessu sé verið að reyna að koma þeim sem senda inn kærur illa. Þegar fólk veit að nöfn þeirra verði opinber með kærunni hugsar það sig kannski tvisvar um áður en það kærir eða sendir inn athugasemdir. Að birta nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir eða kærur hefur ekkert að gera með gegnsæja stjórnsýslu né gegnsætt samráðsferli. Skipulagsyfirvöld hafa þessi nöfn hjá sér og er því engin þörf að opinbera þau.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um birtingu persónuupplýsinga, umsögn:

Svar sem hér er birt við fyrirspurn Flokks fólksins er frá því í maí 2020 er nú loksins lagt fram. Betra seint en aldrei. Spurt var um hvort það samræmdist persónuverndarlögum að birta nöfn þeirra sem senda inn kærur og kvartanir til skipulagsyfirvalda. Athuga ber að kærur eru merktar sem trúnaðargögn. Segir í svari að birting nafna sé í samræmi við lög. Hvað sem því þá líður finnst fulltrúa Flokks fólksins þetta ósmekklegt og óttast að með þessu sé verið að reyna að koma þeim sem senda inn kærur illa? Dæmi eru um að fólk hafi orðið fyrir aðkasti vegna þess eins að tjá sig um sínar skoðanir á stundum viðkvæmum málum þar sem nöfn þeirra eru borin á torg af skipulagsyfirvöldum. Er þetta leið til þöggunar og til að refsa þeim sem hafa aðrar skoðanir en skipulagsyfirvöld? Að birta nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir eða kærur hefur ekkert að gera með gegnsæja stjórnsýslu né gegnsætt samráðsferli. Skipulagsyfirvöld hafa þessi nöfn hjá sér og er því engin ástæða til að birta þau opinberlega

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aðkomu hjólandi vegfarenda þar sem eru tröppur á göngustígum –

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 22. júlí 2021 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs, dags. 12. ágúst 2021:

Í Úlfarsárdal eru tröppur víða og hafa börn sem koma hjólandi í skólann þurft að bera hjól sín upp og niður tröppur auk þess sem hjólastígar eru víða krappir. Taka þarf hjólastíga á þessu svæði til endurskoðunar og gera þá þannig að þeir séu aflíðandi og ekki með krappar beygjur. Fulltrúi Flokks fólksins vill taka dæmi frá Nönnubrunni og niður að Dalskóla. Hér er um að ræða tiltölulega nýtt hverfi og er afar óheppilegt að hönnun sé ekki betri en þetta þegar horft er til barna sem fara um hjólandi. Þetta þarf að endurskoða. Tröppur eru auk þess erfiðar fyrir marga aðra t.d. þá sem eru með skerta hreyfigetu, þá sem eru með börn í kerrum og hjólreiðafólk.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.