Bókun Flokks fólksins við liðnum Strætóstoppistöðvar í Reykjavík – úttekt að aðgengi fyrir alla, kynning og tillaga um aðgerðaráætlun:
Boðað er átak í að bæta aðgengi að strætóstoppistöðvum fyrir fatlað fólk. Betra hefði verið að fá kynninguna fyrir fundinn svo fulltrúar hefðu getað undirbúið sig. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum. Eiginlega er, samkvæmt kynningunni, aðgengi hvergi gott. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað, aðgengi er slæmt á flestum strætóstoppistöðvum í Reykjavík
Loksins á að fara í úrbætur og ber því að fagna vissulega. Þarfir fatlaðs fólks í umferðinni hefur ekki verið forgangsmál árum saman. Í raun má segja að strætó hafi ekki verið ætlað fötluðu fólki. Strætó sem almenningssamgöngur hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu fólki og sjónskertu og blindu fólki.
Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma til að gera ástandið viðunandi hvað þá fullnægjandi. Engar hugmyndir eru um hversu langan tíma þetta á eftir að taka.
Bókun Flokks fólksins við liðnum við liðnum Suður Mjódd, breyting á deiliskipulag:
Tillaga sem lögð er fram á deiliskipulagi Suður Mjóddar er varðar lóðina Álfabakka 4 sem felst í að skipta henni í tvær lóðir, Álfabakka 4 og 6 er jákvæð en breytingin er tilkomin vegna vilyrðis um lóðarúthlutun fyrir starfsemi Garðheima. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með tillögur um endurnýjun Mjóddarinnar, endurskoðun og endurgerð, lífga upp á verslunarkjarnann og stórbæta aðgengi og aðkomu. Færa þarf Mjóddina í nútímalegra horf sem hentar hagsmunum borgarbúa í dag. Til dæmis með því að endurgera og snyrta þau grænu svæði sem þarna eru með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að endurgerð heildarmyndar Mjóddar dragist ekki von úr viti.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um átak gegn hættulegu húsnæði í borginni, umsagnir – Mál nr. US200234
Lögð fram umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu ásamt minnisblaði, dags. 5. október 2020 og umsögn fjölmenningarráðs, dags. 15. október 2020.
Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá:
Bókun Flokks fólksins
Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði.
Tillögunni hefur verið vísað frá. Í svörum hefur komið fram að lagaheimildir skorti til að borgin geti farð í slíkt átak. Það er mjög alvarlegt.
Í umsögn sem birt hefur verið með málinu er sökinni að mestu komið á löggjafann og húseiganda, en eftirlitskerfi borgarinnar er sagt máttlaust.
Fulltrúi Flokks fólksins spyr þá hvort borgaryfirvöld hyggist ekki biðja um betri lagaheimildir? Að eftirlitið sé alfarið á könnu ríkisins er varla raunhæft. Svona mál vinnast best hjá þeim sem næst standa og fulltrúi Flokks fólksins telur að borgin geti ekki varpað frá sér ábyrgðinni eins og mál af þessu tagi komi borgaryfirvöldum ekki við. Að borginni snýr ákveðinn veruleiki, vitneskja og meðvitund um að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði. Vonandi munu borgaryfirvöld ekki bara sitja með hendur í skauti og vona að það verði ekki annar skaðlegur bruni í eldra húsnæði borgarinnar.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stefnu Strætó varðandi lausagang strætisvagna á biðtíma, umsögn:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um stefnu Strætó hvað viðkemur lausagangi strætisvagna á biðtíma. Svarið við fyrirspurninni vekur nokkrar áhyggjur en í því kemur fram að það sé í raun í hendi bílstjórans, hans ákvörðun, hvort hann drepi á vélinni á biðtíma þ.e. í kyrrstöðu. Kjósi bílstjóri að drepa ekki á vélinni á biðtíma, þá hvað? Bílar í gangi menga mjög mikið. Vissulega er gott að vita að nýjustu vagnar Strætó eru umhverfisvænir raf- og metanvagnar. Oft er ekki drepið á vögnunum á biðtíma. Vagnar eru samkvæmt sjónarvottum oft í gangi t.d. á skiptistöðvum eins og Spöng og Mjódd og 5 mínútur í lausagangi er verulega langur tími.
En gott er að vita að Strætó hefur stefnu m.a. sem kveður á um reglur í þessu sambandi en það þarf kannski að fylgja henni betur eftir, hreinlega að gera athuganir á þessu reglulega. Strætó hefur lagt í kostnað vegna breytinga á Euro 6 vögnum þannig að vél bílsins stöðvast sjálfkrafa eftir 5 mínútna lausagang. Þarf ekki að ganga lengra í slíkum aðgerðum? Strætó á því miður langt í land hvað varðar eldsneytissparnað og mengunarvarnir. Það er einnig nokkuð ljóst að það megi ná fram verulegum sparnaði í eldsneytisnotkun með betri og markvissari akstri.
Bókun Flokks fólksins við liðnum við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um gæðaeftirlit með strætisvögnum, umsögn:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvernig gæðaeftirlit með strætisvögnum er háttað. Í svari frá Strætó er ekki betur séð en gott gæðaeftirlit sé með strætisvögnum, í það minnsta eru skýrar reglur um hvernig eftirliti skuli háttað. Það er ábyrgð vagnstjóra að skoða sinn vagn innan og utan og skrá það sem þarf að laga. En hver hefur eftirlit með vagnstjórunum, að þeir sinni þessu hlutverki sínu vel og vandlega? Sennilega má ætla að almennt séð séu strætisvögnum vel við haldið. Nokkrar ábendingar berast þó af og til um að betra viðhalds sé þörf, sem dæmi um að einstaka vagnar aki stundum um eineygðir.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að hætt verði að birta upplýsingar (bæði nöfn og kenntölur) þeirra sem senda inn athugasemdir, kvartanir eða kærur í dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs eða fundargerðir
Fólk sem sendir inn kvörtun/kærur á rétt á því að nöfn þeirra verði trúnaður. Nægjanlegt er að sviðið hafi þessar upplýsingar.
Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi birting hvorki þörf né sanngjörn enda ekki víst að birtingin sé með vitund þessara einstaklinga. Fulltrúi fólksins sendi fyrirspurn um málið til Persónuverndar sem hljóðaði svona:
Er leyfilegt að birta nöfn þeirra sem kvarta eða senda inn ábendingar í dagskrá skipulags- og samgönguráðs (birta þær opinberlega)?
Eftirfarandi svar barst:
Persónuvernd bendir á að þann 25. september sl. úrskurðaði Persónuvernd í máli er varðaði birtingu persónuupplýsinga í tengslum við deiliskipulagstillögu.
Þar var talið að heimilt hefði verið að birta nafn en ekki kennitölu vegna athugasemda við deiliskipulagstillögu. Lagt var fyrir Reykjavíkurborg að afmá kennitölu kvartanda úr athugasemd hans við deiliskipulagstillögu sem birt er á vefsíðu borgarinnar. Þá var lagt fyrir Reykjavíkurborg að veita framvegis fræðslu í samræmi við 13. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018, vegna fyrirhugaðrar birtingar athugasemda við skipulagstillögur.
Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu sviðsstjóra.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig það mál standi:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig það mál standi? Íbúar hafa verið að reyna að ná til skipulagsyfirvalda/sviðs til að fá þessar upplýsingar en ekki haft erindi sem erfiði. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur þá er talsverður hávaði í hverfinu vegna umferðar á Reykjanesbraut og Stekkjarbakka. Eftir því sem næst er komist átti þetta verkefni að vera í forgangi.
Spurt er um stöðu verkefnisins og samhliða hvetur fulltrúi Flokks fólksins skrifstofu umhverfis- og skipulagsmála, skipulags- og samgöngustjóra að fara yfir póstinn sinn og svara fyrirspurnum og erindum frá borgarbúum sem kunna að hafa gleymst.
Því betri viðbrögð og svör sem borgarbúar fá við fyrirspurnum því sjaldnar er þörf á að leita til borgarfulltrúa eftir hjálp við að fá svör. Það eru jú embættismennirnir og starfsfólkið sem hafa svörin en ekki borgarfulltrúar minnihlutans. Minnt er einnig í þessu sambandi á tillögu Flokks fólksins um að bæta vinnubrögð almennt séð við svörun erinda frá borgarbúum
Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skipulagssvið borgarinnar útfæri leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu.
Flokkur fólksins leggur til að skipulagssvið borgarinnar útfæri leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu. Hjólunum er stundum illa lagt, t. d. á miðja gangstétt þannig að fatlaður einstaklingur í hjólastól eða sjónskertur vegfarandi ýmist kemst ekki fram hjá eða gengur á hjólið. Fólk með barnakerrur lendir einnig í vandræðum með að komast ferðar sinnar.
Um 1.100 rafskutlur standa borgarbúum til leigu frá fjórum fyrirtækjum. Fjölga á skutlunum enn meir. Sá ferðamáti sem hér um ræðir hefur rutt sér til rúms í borginni á stuttum tíma. Þetta er góður ferðamáti en enn vantar augljóslega reglur um umgengni. Fylgja þarf lögum í þessu sambandi. Í lögum er skýrt tekið fram að ekki má skilja við hjól þar sem það getur valdið hættu eða óþarfa óþægindum fyrir aðra í umferðinni.
Skýrir rammar þurfa að liggja að baki þessum samgöngutækjum sem öðrum. Hætta er á slysum ef ekkert er að gert og fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagssvið til að bíða ekki eftir þeim áður en tekið er til hendinni við að leysa þetta vandamál.
Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um fyrirhugaðan Arnarnesveg og áhrif hans á Vetrargarð sem byggja á við Jafnasel:
Reykjavíkurborg er með áætlanir um Vetrargarð fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis, við skíðabrekkuna í Jafnaseli.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir svörum við eftirfarandi fyrirspurnum:
- Vatnsendahvarf þar sem nýr Vetrargarður á að rísa er einn besti útsýnisstaður borgarinnar og býður upp á möguleika á heillandi útsýnishúsi eða útsýnispalli ásamt viðeigandi þjónustu. Hversu mikið telja skipulagsyfirvöld að hraðbraut, sem kljúfa á Vatnsendahvarf að endilöngu, dragi úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild?
- Hver munu áhrif hraðbrautar svo nálægt fyrirhuguðum Vetrargarði verða?
- Hvernig verða mengunarmál leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum?
- Umhverfismat fyrir 3. áfanga Arnarnarnesvegar er eldra en 10 ára gamalt, eða frá 2002, og í ljósi þess er ekki enn útséð hvort Skipulagsstofnun fari fram á nýtt mat. Stendur til að fresta útboði þar til niðurstaða um það liggur fyrir?
- Tenging við Breiðholtsbraut er nú áætluð með ljósastýrðum gatnamótum en ekki mislægum eins og upphaflega umhverfismatið gerði ráð fyrir. Þessi gatnamót munu tefja verulega umferð inn og úr Breiðholti, sem liggur um Breiðholtsbraut. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld bregðast við því?
- Vatnsendahvarfið, sem þessi 3. áfangi Arnarnesvegar á að liggja um, er mun grónara en fyrir 18 árum og virði þess sem útivistarsvæðis meira. Þar vex fjölbreyttur gróður og ýmsar tegundir farfugla, svo sem lóur, hrossagaukar og spóar verpa þar á hverju ári. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld standa vörð um náttúru- og dýralífið á meðan á framkvæmdum stendur og í kjölfar þeirra?
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort borgaryfirvöld hyggjast bæta þeim rekstraraðilum sem urðu fyrir rekstrarlegu áfalli í kjölfar lokunar bílaumferðar á svæðinu?
Nú eru mál Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag og nærliggjandi reitir lokið í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að spyrja hvort borgaryfirvöld hyggjast bæta þeim rekstraraðilum sem urðu fyrir rekstrarlegu áfalli í kjölfar lokunar bílaumferðar á svæðinu? Minnt er á að yfirvöld ætluðu að opna aftur götur fyrir umferð eftir sumarlokun en það loforð var svikið.
Allt þetta mál hefur verið erfitt og greiddi fulltrúi Flokks fólksins atkvæði gegn því, ekki vegna þess að hann er á móti göngugötum sem slíkum heldur vegna þeirrar aðferðafræði sem skipulagsyfirvöld í borginni hefur notað við að keyra áfram deiliskipulagið þrátt fyrir mótmæli stórs hóps hagaðila og einnig margra borgarbúa. Skipulagsyfirvöldum hefði verið í lófa lagið að hafa samstarf við hagaðila varðandi hugmyndir um göngugötur, lokun umferðar og hvort, hvenær og með hvaða hætti þessar breytingar gætu orðið þannig að þær myndu ekki skaða rekstur verslana á svæðinu eins og raun bar vitni. Bjóða hefði átt hagaðilum að vera þátttakendum í ákvarðanatöku og ferlinu frá byrjun enda miklir hagsmunir í húfi. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma. Aðeins brot af lausum rýmum má rekja til COVID-19.