Bókun Flokks fólksins við kynningu Hopp og Zolu rafskútuleigu:
Gríðarleg fjölgun er á notkun slíkrar hjóla. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af slysum sem hafa orðið á þessum hjólum og kunna að verða. Nú þegar hafa verið skráð nokkur slys. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þróuninni í ljósi reynslu annarra þjóða. Velta má fyrir sér hvort skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar, ásamt rafskútuleigum hafi unnið með og verið í samvinnu við samgöngustofu og lögreglu um þessi mál? Rafhjólin eru komin til að vera, ekki er um það deilt. Samkvæmt umferðarlögum mega „rafhlaupahjól eingöngu vera á gangstéttum og göngustígum, ekki á götum. Gangandi vegfarendur eiga alltaf réttinn á gangstéttum eða göngustígum. Hjólreiðamaður eða sá sem er á rafmagnshlaupahjóli á að víkja fyrir gangandi vegfarenda. Þá er hjálmaskylda fyrir alla undir 16 ára aldri. Einnig er bannað að keyra á þeim undir áhrifum áfengis“. Borgaryfirvöld eiga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að upplýsa um þessar reglur. Einnig er það á herðum skipulagsyfirvalda að sjá til þess að innviðir séu tilbúnir til að taka við þessari miklu fjölgun rafskútna/hjóla og að allar merkingar og skilti séu í lagi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort byrjað hafi verið á öfugum enda?
Bókun Flokks fólksins við Furugerði 23, breyting á deiliskipulagi:
Verið er að gera breytingar á deiliskipulagi „Espigerði“. Fyrir liggur einnig á fundi 12. ágúst athugasemdalisti íbúa Háaleitis og Bústaðahverfis. Meðal þess sem fram kemur á athugasemdalista er að íbúar hafi áhyggjur af skorti á bílastæðum. Á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða og miðað við núverandi fyrirætlanir er gert ráð fyrir bílakjallara en að þar séu aðeins stæði fyrir íbúa. Ekki sé gert ráð fyrir neinum stæðum við húsin sjálf, svo sem fyrir gesti og aðra og því ekki gert ráð fyrir að gestir komi akandi. „ Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir áhyggjur íbúa í þessu hverfi vegna skorts á bílastæðum samkv. þessari athugasemd og fleiri er varðar þrengsl á gangstéttum og hljóðvist. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hér megi sjá í hnotskurn hvert skipulagsyfirvöld stefna leynt og ljóst í skipulagsmálum víða í borginni. Verið er að auka byggingarmagn gríðarlega en ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða Brátt mun það ekki standa Reykvíkingum sem hyggjast kaupa nýbyggingar til boða að geta lagt í námunda við heimili sín. Skipulagsyfirvöld bjóða sums staðar upp á miðlægan bílastæðakjallara í hverfi eða í besta falli deilistæði. Hafa borgarbúar verið spurðir hvort þeir séu sáttir við þetta skipulag?
Bókun Flokks fólksins við Fegrunarviðurkenningar 2020, tilnefningar trúnaðarmál, bókun fer í trúnaðarbók og verður opinberuð síðar.
Bókun Flokks fólksins við erindi starfsmanns íbúaráða, dags. 3. júlí 2020, f.h. íbúaráðs Háaleitis og Bústaða og bréf íbúa í Fururgerði til íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis:
Í athugasemdalista íbúaráðsins segir: „Íbúar hafa áhyggjur af skorti á bílastæðum. Á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða og miðað við núverand fyrirætlanir er gert ráð fyrir bílakjallara en að þar séu aðeins stæði fyrir íbúa. Ekki sé gert ráð fyrir neinum stæðum við húsin sjálf, svo sem fyrir gesti og aðra og því ekki gert ráð fyrir að gestir komi akandi. „ Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir áhyggjur íbúa í þessu hverfi vegna skorts á bílastæðum samkvæmt þessari athugasemd.Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hér megi sjá í hnotskurn hvert skipulagsyfirvöld stefna leynt og ljóst í skipulagsmálum víða í borginni. Verið er að auka byggingarmagn gríðarlega en ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða Brátt mun það ekki standa Reykvíkingum sem hyggjast kaupa nýbyggingar til boða að geta lagt í námunda við heimili sín. Skipulagsyfirvöld bjóða sums staðar upp á miðlægan bílastæðakjallara í hverfi eða í besta falli deilistæði. Hafa borgarbúar verið spurðir hvort þeir séu sáttir við þetta? Sams konar má sjá í hugmyndum um hverfisskipulag í Breiðholti. Þar fá eigendur séreigna að bæta við íbúð en ekki skal fylgja bílastæði. Þar verður veitt heimild að byggja hæðir ofan á blokkir en ekki skal fjölga bílastæðum.
Bókun Flokks fólksins við erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna v.Koparslétta 6-8, kæra 56/2020:
Fyrir liggur kæra vegna breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Í gögnum kærunnar er þess er krafist að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felli úr gildi ákvörðun borgarráðs 2. apríl 2020 um að samþykkja breytinguna. . Í breytingunum felst m.a. að skipulögð er um 5 hektara lóð fyrir Malbikunarstöð Höfða þar sem fyrirtækið hyggst flytja starfsemi sína á Esjumela. Það er mat Flokks fólksins kæra þessi er réttmæt enda hér um að ræða ákvörðun sem hefur neikvæð umhverfis- og sjónræn áhrif og sem mun skerða gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði. Hér er verið að búa til stóra lóð undir malbikunarstöð, sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif á umhverfið.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um neyðarnúmer, vegna bílastæða, umsögn en tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum meirihlutans. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá:
Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg hafi neyðarnúmer/þjónustusíma sem hægt er að hringja í eftir hefðbundinn opnunartíma þjónustuvers hefur verið felld. Tillagan var send til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem hefur ekkert að gera með þessa tillögu. Rökin fyrir að fella tillöguna er því ekki byggð á umsögn þeirra sem hafa með þessi mál að gera. Þessi þjónusta sem Flokkur fólksins er að reyna að fá bætta er ekki í góðu lagi. Fólk hefur lent í miklum vandræðum í bílastæðahúsum. Af afgreiðslunni að dæma lítur ekki út fyrir að laga eigi þessa hluti. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið ábendingar frá þeim sem lokast hafa inni í bílastæðahúsum og ekki fundið leiðir til að kalla eftir hjálp. Almennt séð er það ólíðandi að fólk geti ekki hringt í neitt númer, neyðar- eða þjónustunúmer þegar það lendir í vandræðum í einhverjum af stofnunum Reykjavíkurborgar eftir að lokun. Hér þarf að bæta úr hið snarasta. Það myndi breyta miklu að hafa þjónustu/neyðarsíma sem fólk hefur aðgang að ef það lendir í vandræðum í borginni. Þótt tillagan hafi verið felld er það enn von fulltrúa Flokks fólksins að bílastæðasjóður taki til greinar þessar ábendingar, í það minnsta merki betur hvað fólks skuli gera lendi það í vandræðum.
Bókun Flokks fólksins við við svari fyrirspurnar Sjálfstæðisflokksins um grjóthrúgur við Eiðsgranda:
Af svari að dæma um grjóthrúgur á Eiðsgranda virðist verkefnið allt vera vanhugsað. Lagt er út í það án þess að hugsa það til enda. Lesa má í hverri línu umsagnarinnar þótt það sé ekki sagt beinum orðum að “ákvörðun um mölina var ekki mikið ígrunduð og að manirnar urðu óþarflega háar”. Hér eru enn ein mistökin í skipulagsmálum að ræða sem kosta mun borgarbúa fé. Í þessu verkefni alla vega virðist sem framkvæmdin hafi ekki verið hugsuð til enda. Fulltrúi Flokks fólks kallar eftir að meiri skynsemi sé sýnd í þessum málum og minnt er á enn og aftur að verið er að sýsla með fé borgarbúa.
Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að sama ívilnun gildi fyrir visthæfa bíla, þe. 90 mín. frítt í stæði í bílastæðahúsum og í götustæði.
Tillaga Flokks fólksins að sama ívilnun gildi fyrir visthæfa bíla, þe. 90 mín. frítt í stæði í bílastæðahúsum og í götustæði. Það er ekki rökrétt að bjóða visthæfu bílaeigendum að leggja frítt í stæði á götu í 90 mínútur en ekki í bílastæðahúsi. Með því að hafa ekki sömu ívilnun í bílastæðahúsinu eru skipulagsyfirvöld að hvetja þessar bílaeigendur að leggja frekar bíl sínum á götu en í bílastæðahúsi. Hér eru skipulagsyfirvöld í mótsögn við sjálfa sig. Þau agnúast út í bílaeigendur sem koma í miðborgina á bíl sínum en gera hins vegar fátt til að hvetja þá til að a.m.k. nýta sér bílastæðahúsin sem eru mörg hver illa nýtt.Samkvæmt samgöngustjóra (17. 2. 20) er nýting húsanna á þessum tíma almennt lítil, 10-15% nýting ef langtímanotendur með mánaðarkort eru taldir með. Engu að síður sjá skipulagsyfirvöld ofsjónum yfir lækkun tekna bílastæðasjóðs ef gjaldfrjálst verður í bílahúsin frá kl. 22:00 til kl. 08:00 eins og ein af tillögu Flokks fólksins gekk út á. Ef lagt er yfir nótt frá kl. 22:00 að kvöldi og sótt rétt kl. 8:00 morguninn eftir þarf sem dæmi að greiða 1.050 kr. í Stjörnuporti, og Vitatorgi en 1.320 kr.
Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að að bíllinn verði aðgengilegur allan sólarhringinn í bílastæðahúsum og að kostnaður við að leggja í bílastæðahús verði áþreifanlega minni en ef lagt er á götum úti.
Tillaga Flokks fólksins að bíllinn verði aðgengilegur allan sólarhringinn í bílastæðahúsum og að kostnaður við að leggja í bílastæðahús verði áþreifanlega minni en ef lagt er á götum úti. Bílastæðasjóður Reykjavíkurborgar rekur sjö bílastæðahús. Viðurkennt hefur verið af skipulagsyfirvöldum að skammtímastæði þar eru illa nýtt seint á degi og um kvöld.Þar er ekki boðið upp á að greiða með t.d. leggja.is eða öðru sambærilegu. Samkvæmt heimasíðu Bílastæðasjóðs er dýrara að leggja í bílastæðahúsum en út á götu á gjaldsvæðum 2-4. Í bílastæðahúsum þarf að greiða gjald fyrir allan þann tíma sem bíl er lagt og ekki er boðið upp á ívilnanir fyrir metan- eða rafbíla eða frítt stæði í 90 mín eins og í gjaldstæði á götum. Á heimasíðu bílastæðasjóðs eru ekki upplýsingar um nýjar reglur um gjaldskyldu og gjaldskyldusvæði sem samþykktar voru 12. september 2029. Helstu breytingar voru að gjaldskylda er nú á sunnudögum og lengja á gjaldskyldu á gjaldsvæði 1 til 20:00 á virkum dögum. Eru þær reglur kannski ekki búnar að taka gildi?Ef bílastæðahús eiga að vera nýtt með fullnægjandi hætta þurfa þau að vera opin allan sólarhringinn þannig að þeir sem vilja dvelja í miðbænum fram yfir miðnætti geta lagt þar.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og til umsagnar bílastæðasjóðs.
Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að bílastæðasjóður birti á heimasíðu sinni réttar upplýsingar um gjaldskyldutíma
Tillaga að bílastæðasjóður birti á heimasíðu sinni réttar upplýsingar um gjaldskyldutíma. Samþykkt var sl. vetur á fundi skipulags- og samgönguráðs 12. september 2019 að lengja gjaldskyldu á svæði 1 til klukkan 20 á vikum dögum og á laugardögum og að bæta við gjaldskyldu á svæðinu á sunnudögum frá klukkan 10-16. Á heimasíðu bílastæðasjóðs kemur þessi breyting ekki fram, nema að þessar nýju reglur hafi ekki tekið gildi? Ef þær hafa gert það þá hefur heimasíðan ekki verið uppfærð. Upplýsingar á heimasíðunni gefa til kynna núna að gjaldskyldu ljúki kl. 18 en ekki 20 í gjaldstæði 1 og að engin gjaldskylda sé á sunnudögum. Einnig segir að gjald sé innheimt á virkum dögum milli 9-18 og á laugardögum 10-16 og í P4 8-16 . Auk þess eru aðrar upplýsingar einnig villandi. Í dálknum gjaldskyld svæði eru sunnudagar ekki nefndir. Neðar á heimasíðunni er listi yfir daga sem ekki er tekið gjald en þar eru sunnudagar ekki heldur nefndir. Þessar mikilvægu upplýsingar skipta máli fyrir fólk sem veltir fyrir sér hvort það vilji heimsækja bæinn á sunnudögum og þurfi þá e.t.v. að leggja í gjaldskyld svæði. https://www.bilastaedasjodur.is/gjaldskylda/gjaldsvaedin.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og til umsagnar bílastæðasjóðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um að draga eigi úr byggingarheimildum atvinnusvæðis í Skerjafirði:
Í gögnum um uppbyggingu í Skerjafirði kemur fram að draga eigi úr byggingarheimildum atvinnusvæðis í Skerjafirði. Nú þegar er þetta svæði ekki mikið atvinnusvæði. Spurt er þess vegna hvað átt sé við hér, hvernig atvinnusvæði er verið að vísa til?
Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu skipulagsfulltrúa.
Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd. Úr göngugötunni í Mjódd er aðkoma í fjölmargar verslanir og þangað koma margir.
Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd. Úr göngugötunni í Mjódd er aðkoma í fjölmargar verslanir og þangað koma margir. Gera mætti fjölmargt fyrir götuna til að gera hana meira aðlaðandi. Stundum er þar götumarkaður en fjölmargt annað mætti koma til sem laðaði að aldna sem unga. Yfirbyggð gata eins og göngugatan í Mjódd og það útisvæði sem er þar í kring s.s. litlu torgin við innganga til norðurs og suðurs bíður upp á ótal tækifæri. Þar mætti sem dæmi spila tónlist, söng, dans og annað sem gleðja myndu gesti og gangandi. Þá er einnig ónotuð lóð við Álfabakka 18. Ekki er séð að nein sérstök stefna ríki um svæðið í Mjódd. Vel mætti vinna markvisst að því að gera þetta svæði að helsta kjarna Breiðholtsins. Með því að glæða götuna lífi mun það auka aðsóknina og breikka hóp viðskiptavina. Takist vel til myndu fleiri fyrirtæki og verslanir vilja vera á svæðinu sem er sérstaklega vel staðsett því aðkoma er góð úr mörgum áttum. Gera ætti göngugötuna í Mjódd að afþreyingarmiðaðri göngugötu og er þá átt við göngugötu sem fólk sækir í ýmist til að versla, fá sér kaffi og/eða upplifa viðburði.
Greinargerð
Göngugatan í Mjódd hentar mjög vel fyrir þá sem langar að hitta aðra eða sjá skemmtilega hluti. Verslun í bland við veitingasölu, uppákomur, gjörninga og styttri viðburði svo sem uppistand, stutta leikþætti, tónlistar- og söngatriði, og fleira í þeim dúr er eitthvað sem laðar að. Skreyta mætti götuna meira með listaverkum, mála hana með glaðlegum litum, setja upp fleiri lítil leiktæki og aðra afþreyingu sem þarna myndi passa inn.
Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld að gefa þessu gaum. Það standa til ákveðnar framkvæmdir utandyra í Mjódd og er það mjög gott en þarna bíður göngugatan í Mjódd eftir meira lífi og aukna upplifun fyrir gesti og gangandi.
Fellt með fjórum greiddum atkvæðum, fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg heldur ekki viðburði í verslunarkjörnum í einkaeigu en meirihlutinn hefur á þessu kjörtímbili lagt vinnu við að fegra ásýnd svæðis í kringum Mjóddina og er sú vinnan enn þá yfirstandandi. Vinna við borgalínu mun fara í gang þegar annar áfangi fer í vinnu og þá gefst tækifæri til að skipuleggja svæðið í heild sinni. Tillagan er því felld.
Áheyrnarfulltrú Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins úr borgarráði, um eflingu starfsemi í Mjódd hefur verið felld af skipulagsyfirvöldum. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins þegar bókun meirihlutans er skoðuð að skipulagsyfirvöld hafi ekki mikinn áhuga á öðrum göngugötum en þeim sem tilheyra miðbænum. Á göngugötum í miðbænum halda borgaryfirvöld oft viðburði. Á þeim götum eru verslanir líka í einkaeigu fjölmargra. Reykjavíkurborg hefur reyndar haldið viðburð í göngugötunni í Mjódd svo fyrir því er fordæmi, því miður eru þeir allt of fáir. Borgin á eignir í Mjóddinni og ber ákveðna ábyrgð ásamt fleirum á bílastæðunum, aðgengi og öryggi þar. Hvernig á að túlka þetta öðruvísi en skipulagsyfirvöld hafi minni áhuga á úthverfum en miðbænum? Vinna við borgarlínu þarf ekki að koma í veg fyrir að lífga megi upp göngugötunni í Mjódd. Eitt útilokar ekki annað í þessum efnum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar endurgerð torga. Ef lífgað yrði upp á göngugötuna myndu fleiri ganga um torgin.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort leiðbeiningum sé ávallt fylgt og af hverju ekki séu til íslenskar leiðbeiningar/reglur?:
Spurt er hvort leiðbeiningum sé ávallt fylgt og af hverju ekki séu til íslenskar leiðbeiningar/reglur? Við hönnun hraðahindrana í Reykjavík er erlendum leiðbeiningum fylgt, oftast norskum eða dönskum. Þar er lýst mismunandi gerðum og formi eftir aðstæðum. Sérstakar leiðbeiningar eru um útfærslu 30 km/klst „hliða“ í Reykjavík á þeim stöðum þar sem 30km/klst hverfi eru afmörkuð.Fulltrúi Flokks fólksins óskar að vita af hverju ekki eru til íslenskar leiðbeiningar eða reglur um gerð hraðahindrana í ólíkum aðstæðum sem taki mið af reynslu við notkun hraðahindrana hér á landi? Einnig er spurt hvort þessum norsku og dönsku leiðbeiningum hafi ávallt verið fylgt til hins ýtrasta? Ef ekki, í hvaða tilfellum var þeim ekki fylgt og hverjar voru ástæður þess að gerðar voru undantekningar?
Frestað.
Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að fresta/frysta samþykktarferli hverfisskipulags Breiðholts vegna COVID aðstæðna þar til hægt verði að hafa íbúaráðsfundi í Breiðholti.
Tillaga Flokks fólksins um að fresta/frysta samþykktarferli hverfisskipulags Breiðholts vegna COVID aðstæðna þar til hægt verði að hafa íbúaráðsfundi í Breiðholti. Eins og sakir standa er ekki hægt að bjóða upp á mannmarga viðburði til að ræða hugmyndir um nýtt hverfisskipulag í Breiðholti svo vel sé. Um er að ræða stórfelldar breytingar sem íbúar þess verða að fá fulla aðkomu að til að geta sett sig inn í það, mótað skoðanir og komið þeim á framfæri. Á með staðan er svona vegna COVID er það ábyrgðarhluti ef borgaryfirvöld ætla að kalla saman fólk á fundi til að ræða skipulag eða annað ef því er að skipta. Skipulagsyfirvöld geta nýtt tímann til að yfirfara þær ábendingar sem þegar hafa borist og aðlagað hverfisskipulagið að þeim. Nú hafa sem dæmi margir stigið fram og lýst áhyggjum sínum yfir stefnu skipulagsyfirvalda að þrengja að bíleigendum með þeim hætti að erfitt er að finna bílastæði. Bílastæðaskortur er nú þegar víða í Breiðholti sem dæmi í Seljahverfi og Austurberginu. Það er skortur á bílastæðum hjá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þegar dagskólinn er. En ekkert skal gert nema í samráði við íbúana og séu íbúar ósammála innbyrðis eða ósammála skipulagsyfirvöldum er mikilvægt að kosið verði um þau atriði. Einfaldur meirihluti muni þá ráða.
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort og hvernig gæðaeftirlit með strætisvögnum er háttað?
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita hvort og hvernig gæðaeftirlit með strætisvögnum er háttað? Dæmi eru um að vagnar séu ekki með ljósin í lagi svo fátt sé nefnt sem fólk hefur tekið eftir. Er virkt eftirlit haft með vögnunum? Spurt er hvort einhver gangi t.d. reglulega um vagnanna og skoðar þá innan og utan til að kanna hvort allt sé í lagi með þá?
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hver er kostnaður af þessum grjótmönum sem settar voru á Eiðsgranda og hver mun viðbótarkostnaður verða við lagfæringu þeirra?:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hver er kostnaður af þessum grjótmönum sem settar voru á Eiðsgranda og hver mun viðbótarkostnaður verða við lagfæringu þeirra? Í svari við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins um málið segir: „Að nú hafi verið tekin ákvörðun um að laga manirnar, lækka þær og laga betur að landinu. Síðan verður sáð og gróðursettur strandgróður í svæðið. Manirnar séu ekki grjóthrúgur heldur er sé þetta uppgröftur úr stígnum og lag af möl yfir en ekki hafi unnist tími til að huga nægilega vel að frágangi. En fremur að ákvörðun um mölina var ekki mikið ígrunduð og manirnar höfðu ekki verið hannaðar heldur unnar beint í landið. Manirnar urðu óþarflega háar og sérstaklega ein mönin sem er of há og of brött og lokar sýn úr Rekagranda og að alltaf hafi staðið til að græða upp manirnar með gróðri sem ekki væri hægt að hefja fyrr en að vori.“ Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um kostnað alls verkefnisins og sundurliðun eftir verkþáttum.
Frestað.
Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld endurskoði, áður en lengra er haldið með nýtt hverfisskipulag í Breiðholti, þær ábendingar sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum sérstaklega hvað varða áhyggjur íbúa á frekari skorti á bílastæðum í hverfinu.
Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld endurskoði, áður en lengra er haldið með nýtt hverfisskipulag í Breiðholti, þær ábendingar sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum sérstaklega hvað varða áhyggjur íbúa á frekari skorti á bílastæðum í hverfinu. Vinnutillögur fyrir hverfisskipulag Breiðholts gera ráð fyrir að íbúðum fjölgi um 3000 í hverfinu án þess að þeim fylgi bílastæði í sambærilegu hlutfalli. Endurskoða þarf hugmyndir sem lúta að mögulegum bílastæðum sem ættu að fylgja þeim aukaíbúðum sem eigendur sérbýlishúsa mega byggja/innrétta á lóðum sínum. Í hugmyndunum er ekki gert ráð fyrir að þessar aukaíbúðir fái bílastæði. Verði það raunin mun það rýra gildi eignarinnar enda fólk almennt síður tilbúið að leiga eða kaupa eign þar sem það eða gestir þeirra geti ekki lagt bíl sínum nálægt. Eldri borgarar og hreyfihamlaðir nota frekar bíl en hjól til að ferðast um sem dæmi. Einnig þarf að endurskoða það blokkarbyggingarmagn sem áætlað er að byggja í Breiðholti. Byggja á mikið af blokkum í hverfi sem hefur hvað flestar blokkirnar í borginni. Gengið er á græn svæði og leikvelli sem ekki er boðlegt. Byggja á litlar íbúðir en ekki er séð að skortur verði á litlum íbúðum ef horft er til yfirstandandi framkvæmda í borginni og íbúðir sem ekki hafa selst.
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um yfirlit yfir þá þjálfun og fyrirmæli sem strætisvagnabílstjórar fá hvað þetta varðar og þá er átt einnig við hvort bílstjórar fái ekki þau fyrirmæli að hafa vagna aldrei í lausagangi á biðstöð s.s. á Hlemmi eða í Mjódd:
Bílar sem brenna bensín eða dísel eyða og menga mest á litlum hraða í fyrsta gír, svo ekki sé talað um kyrrstöðu. Þá brenna þeir og menga til einskis. Flestir nýir einkabílar af öllum gerðum eru í dag með hugbúnað sem lokar fyrir eldsneyti til vélarinnar þegar verið er að hægja á ferðinni og stöðvar síðan vélina þegar menn stoppa, t.d. á ljósum, en ræsir síðan sjálfvirkt vélina aftur þegar bremsunni er sleppt. Þetta á ekki við um þá vagna sem Strætó notar. Þeir eru alltaf í gangi í akstri, sem og þegar stoppað er á ljósum eða á stoppistöðvum í lengri og skemmri tíma. Það er alltaf bílstjórans á þessum vögnum því að ákveða hvenær drepið er á vélinni og hvenær ekki. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram eftirfarandi fyrirspurnir: Hver er stefna Strætó. bs. hvað þetta varðar? Hvað er bílstjórum Strætó bs. kennt og uppálagt í þessum efnum? Óskað er eftir að fá yfirlit yfir þá þjálfun og fyrirmæli sem strætisvagnabílstjórar fá hvað þetta varðar og þá er átt einnig við hvort bílstjórar fái ekki þau fyrirmæli að hafa vagna aldrei í lausagangi á biðstöð s.s. á Hlemmi eða í Mjódd?
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um upplýsingum um hvað þessi mistök í útboðsmálum munu kosta borgarbúa og hvaða úrbætur Reykjavík hyggst gera á verklagi í ljósi úrskurðarins?
Nú hefur úrskurðarnefnd kærunefndar útboðsmála fellt úr gildi hönnunarsamkeppni sem Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær stóðu fyrir um hönnun brúar yfir Fossvog. Fimm hönnunar- og arkitektastofur af þeim ellefu sem ekki voru valdir í forvalið kærðu valið til kærunefndar útboðsmála sem hefur stöðvað keppnina tímabundið. Alls sendu sautján hönnunar- og arkitektastofur inn tillögur. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar í úrskurðinum við vinnubrögð Vegagerðarinnar og eru hún, Reykjavíkurborg og Kópavogur gert að greiða skaðabætur samkvæmt úrskurðarorði. Fram kemur í úrskurðinum að „Efla hf. hafi fengið óeðlilegt forskot á aðra þátttakendur. Jafnframt hafi einn dómnefndarmenn verið starfsmaður Eflu hf. og tiltekinn starfsmaður Vegagerðarinnar, sem hafi staðfest ákvörðun dómnefndar um val þátttakenda, verið eigandi, stjórnarmaður og starfsmaður Eflu hf. þar til fyrir skömmu. Dómnefndin hafi því verið vanhæf til ákvarðanatöku í forvalinu“. Í þessu máli er alla vega víst að Reykjavíkurborg ber ákvarðanaábyrgð og skaðabætur greiðast úr vasa útsvarsgreiðenda. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvað þessi mistök í útboðsmálum munu kosta borgarbúa og hvaða úrbætur Reykjavík hyggst gera á verklagi í ljósi úrskurðarins?
Frestað.
Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að borgarstjórn samþykki að lagfæra vatnsflæðisvandamál við Leirubakka í Breiðholti. Í fjölda ára hefur verið kvartað yfir vatnsflæði sem kemur í leysingum (hláku).
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að lagfæra vatnsflæðisvandamál við Leirubakka í Breiðholti. Í fjölda ára hefur verið kvartað yfir vatnsflæði sem kemur í leysingum (hláku). Það kemur úr holtinu ofan við Stöng. Stöng liggur frá Arnarbakka og upp að Breiðholtsbraut og er með hita til snjóbræðslu sem eykur enn vatnsflæðið. Vatnið rennur inn Leirubakkann og hefur í gegnum árin valdið tjóni á malbiki. Þegar frystir og þiðnar að þá veldur þetta vatn tjóni á malbikinu sem liggur inn Leirubakkann. Stundum rennur vatnið inn allan Leirubakkann og endar í niðurfalli innst sem hefur ekki undan og stíflast. Þegar frystir er erfitt að hreinsa frá niðurfallinu, sem lendir oft á íbúum að gera. Vandamál sem þessi eiga ekki að vera viðvarandi. Þetta er hægt að laga og hefði átt að laga um leið og vandinn kom í ljós. Lagt er til að niðurföllin neðan við Stöng í Arnarbakkanum verði lagfærð þannig að þau taki við vatninu sem kemur úr brekkunni og úr holtinu. Jafnframt er lagt til að Reykjavíkurborg lagfæri malbikið í Leirubakkanum. Íbúar eiga ekki að þurfa að laga skemmdir sem vatn hefur valdið sem kemur langt að vegna galla í hönnun niðurfalla við Stöng í Arnarbakka.
Frestað.
Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld borgarinnar setji rafmagns- og metan bíla á lista yfir það sem þau kalla vistvænan ferðamáta.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld borgarinnar setji rafmagns- og metan bíla á lista yfir það sem þau kalla vistvænan ferðamáta. Í nýju hverfisskipulagi Breiðholts er farið mörgum orðum um vistvænan ferðamáta en ekki minnst á vistvæna bíla. Áhersla er lögð á að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði og að aðgengi allra sé tryggt, óháð hreyfigetu. Ekki einu orði er minnst á rafmagns- eða metanbíla heldur einungis hjól og síðan væntanlega borgarlínu. Telja skipulagsyfirvöld þar með að hreyfihamlaðir sem dæmi notist frekar við hjól en bíl? Nú eru aðeins 10 ár þar til bannað verður að flytja inn bensín- og díselbíla. Skipulagsyfirvöld verða að fara að sætta sig við að þau koma ekki öllum á hjól og þurfa því að viðurkenna að einkabíllinn mun áfram verða einn helsti ferðamáti borgarbúa. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að nú ætti að leggja alla áherslu á að styðja og hvetja til orkuskipta og taka rafmagns og metanbílinn inn í flokkinn „vistvænn ferðamáti“.
Frestað.
Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að hraða framkvæmdum við byggingu nýs kirkjugarðar við Úlfarsfell sem dregist hefur von úr viti:
Í Reykjavík hafa borgar- og skipulags yfirvöld sýnt getuleysi þegar kemur að þessum málaflokki. Það líður að því að plássin fyrir kistur í Gufuneskirkjugarði klárist en reiknað er með plássi fyrir kistur í mesta lagi 3-4 ár í viðbót og þá þarf að fara að jarða Reykvíkinga í kirkjugarðinum í Kópavogi. Kirkjugarðurinn við Úlfarsfell hefur lengi verið í undirbúningi. Skipulagsyfirvöld hafa dregið það árum saman að hefja framkvæmdir. Ítrekað hefur skipulagsyfirvöldum verið gert ljóst að brýn þörf er á nýjum grafarsvæðum og að hraða þurfi framkvæmdum á kirkjugarðinum við Úlfarsfell en skipulagsyfirvöld hafa látið málið sem vind og eyru og þjóta. Það er miður að borgaryfirvöld sjái ekki nauðsyn þess að fullklára kirkjugarð þar sem Reykvíkingar sem óska þess að vera jarðaðir í kistu fái að hvíla. Fulltrúi Flokks fólksins leggur auk þess til að gert verði átak í Hólavallagarði en honum þarf að halda betur við en gert hefur verið. Aðeins hluti garðsins hefur verið tekinn í gegn en annar hluti hans er að grotna niður. Skipulagsyfirvöld borgarinnar hafa til margra ára ekki sýnt Hólavallagarði nægjanlega virðingu og ekki úthlutað til hans nauðsynlegum fjármunum til að halda honum við.
Frestað.