Velferðarráð 10. ágúst 2018

Tillögur og bókanir Flokks fólksins á fundi Velferðarráðs 10. ágúst 2018

Velferðarráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Heimilisleysi er mannréttindabrot. Í stefnu borgarinnar kemur fram að allir borgarbúar eigi að hafi öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki“. Við þetta hefur ekki verið staðið. Borginni ber skylda til að aðstoða þá sem hafa af einhverjum orsökum misst heimili sín eða eru húsnæðislausir. Að allir eigi þak yfir höfuð sitt og barna sinna er mannréttindamál.
Um árabil hafa borist fréttir af fjölgun fólks sem er heimilislaust. Vandinn hefur verið að stigmagnast síðustu ár. Jafnvel þótt markmið borgaryfirvalda séu skýr hafa þau hunsað upplýsingar um þessa alvarlegu þróun og því má segja að flotið hafi verið vakandi að feigðarósi. Flokkur fólksins telur að hér sé um neyðarástand að ræða. Tæplega 1000 manns eru nú á biðlista eftir félagslegu húsnæði.
Stjórnarandstaðan hefur á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá kosningum rifið upp þennan málaflokk. Flokkur fólksins fagnar því að borgin ætli nú loksins að fara að girða sig í brók og taka til hendinni. Nú gengur ekki lengur að tala bara heldur þarf að fara að framkvæma markvisst og með skýran tímaramma. Fjölga þarf úrræðum fyrir þá sem eru heimilislausir og sum úrræði þurfa að koma strax áður en vetur skellur á.

Borgarráð vísaði eftirfarandi tillögum í Velferðarráð:

Tillaga Flokks fólksins um að borgin kaupi ónotað húsnæði og innrétti íbúðir fyrir efnaminna fólk

Tillaga um að borgin tilgreini framtíðarsvæði nálægt grunnþjónustu fyrir hjólhýsa- og húsbílabyggð.

Lagt til að báðum tillögunum sé vísað til stýrihóps um mótun stefnu í þjónustu velferðarsviðs við utangarðsfólk.
Samþykkt

Tillaga Flokks fólksins í Velferðarráði um að borgarstjórn leggi allt kapp á að útrýma heimilisleysi í Reykjavík með öllu á kjörtímabilinu.

Frestað.

Tillaga Flokks fólksins í Velferðarráði að hugtakið utangarðsfólk verði ekki notað frekar hjá velferðarsviði og velferðarráði borgarinnar.

Hugtakið er að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins neikvætt og er ef til vill barn síns tíma. Lagt er til að í stað hugtaksins utangarðsfólk sé talað um heimilislausa eða fólk í húsnæðisvanda. Heimilislaust fólk er afar fjölbreyttur hópur fólks sem á það sameiginlegt að hafa ekki aðgang að hefðbundnu húsnæði, hefur ekki húsaskjól að staðaldri á sama stað.

Frestað.