Viðtal á Útvarpi Sögu um kynferðisofbeldi gegn börnum
Rætt er m.a. um:
Birtingamyndir kynferðisofbeldis
Hvaða börn eru helst í áhættuhópi?
Hvar getur misnotkun átt sér stað?
Þegar gerandi er nákominn
Forvarnir, fræðsla: fyrirbyggjandi aðgerðir
Viðbrögð fullorðinna þegar barn segir frá
Birtingarmyndir kynferðisofbeldis og kynferðislegrar áreitni
Kynferðisleg áreitni er samheiti yfir margs konar atferli sem er móðgandi, særandi og er í óþökk þess sem fyrir henni verður. Um er að ræða hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða sjálfsvirðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru niðurlægjandi. Um getur verið að ræða eitt skipti eða fleiri þar sem áreitninni er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn ósk um að látið sé af hegðuninni. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin, táknræn eða birst eftir rafrænum leiðum og er hegðun sem einkennist af misnotkun á valdi eða stöðu.
Enda þótt flestir séu sammála um hvað telst til almennra umgengnisreglna er upplifun fólks bæði á áreiti (stimulus) umhverfisins á skynfæri og áreitni (eitthvað sem ertir, særir eða móðgar) einstaklingsbundin. Upplifunin byggir á ótal þáttum t.d. persónuleika, uppeldi og reynslu. Það er því ávallt huglægt mat og einstaklingsbundin upplifun hvers og eins sem ræður því hvar hann setur sín persónulegu mörk í samskiptum og hvenær honum finnst hafa verið farið yfir þau mörk.
Helstu birtingarmyndir
Klúrir og klámfengnir brandarar og kynferðislegar athugasemdir í máli eða myndum.
Skriflegar athugasemdir um útlit, líkama, klæðnað eða annað sem að öllu jöfnu telst vera persónulegt málefni hvers og eins
Klámfengin skrif, sögur eða kynferðislegar myndir sendar eftir rafrænum leiðum eða óskað eftir að fá sent slíkt efni frá einstaklingi
Klámfengið tal, kynferðisleg hljóð eða hreyfingar
Óviðeigandi spurningar um kynferðisleg málefni
Augnatillit, svipbrigði, líkamsmál sem gefur í skyn kynferðislega tilburði um kynferðislegt samneyti
Snerting, strokur eða önnur líkamleg nálægð umfram það sem telst venjubundið meðal fólks annarra en ástvina og fjölskyldu
Káf, þukl, klípa, klappa, strjúka, lyfta eða grípa í manneskju
Kynferðisofbeldi
Kynferðisofbeldi er ofbeldi og ofbeldi varðar við lög. Í umræðunni í dag er „kynferðisofbeldi eða kynbundið ofbeldi“ notað til að skýra kynferðislega áreitni af ýmsu tagi og kynferðisglæpi, líkamlega valdbeitingu og óviðeigandi kynferðislega hegðun með eða án snertingar. Kynferðisofbeldi á það sameiginlegt að þolendur þess eru beittir ofbeldi sem hefur beina skírskotun til kyns viðkomandi. Kynferðisofbeldi miðar að því að lítillækka, auðmýkja, ráða yfir og skeyta ekki um vilja eða líðan þess sem fyrir því verður Kröfur eða þvinganir til kynferðislegs samneytis og nauðgun er kynferðisofbeldi. Kynferðisofbeldi birtist einnig í mismunandi formi. Það getur t. d. verið sifjaspell, kynferðisofbeldi ókunnugra gegn börnum, nauðganir, vændi og klám. Um er að ræða hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða sjálfsvirðingu viðkomandi, meiða og skaða.
Hér er ekki um tæmandi lista að ræða heldur aðeins sýnishorn af birtingarmyndum kynferðislegrar áreitni og kynferðisofbeldis.