Endurskoða ber ákvörðun um niðurlagningu Borgarskjalasafns

Tillaga um lokun Borgarskjalasafns í sparnaðarskyni var samþykkt á fundi borgarstjórnar 7. mars 2023 með með ellefu atkvæðum gegn tíu. Í borgarstjórn 19. mars 2024 verður lögð fram tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að endurskoða ákvörðun um niðurlagningu Borgarskjalasafns.

Nú liggja fyrir drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn í samráðsgátt stjórnvalda. Þar segir „að ef standi til að hætta starfsemi héraðsskjalasafna skal Þjóðskjalasafni afhent safngögnin á kostnað þess sveitarfélags. Sveitarfélag skal við afhendingu greiða fyrir móttöku þeirra, vörslu, ráðgjöf um skjalahald og eftirlit samkvæmt gjaldskrá.“ Samráði um frumvarpið lauk fyrir skemmstu og hafa 11 umsagnir borist. Nái frumvarpið fram að ganga þá eru forsendur meirihlutans fyrir lokun Borgarskjalasafns brostnar þar sem ljóst má telja að flutningur gagna  yfir á Þjóðskjalasafn er líklegt til að verða kostnaðarsamt.

Ákvörðun um niðurlagningu Borgarskjalasafns kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Þetta var reiðarslag því vísindafólk og aðrir borgarar höfðu engar fregnir af fyrirætluninni. Borgarskjalavörður sem starfað hefur í sínu embætti í um 35 ár var heldur ekki upplýstur fyrr en reitt var til höggs. Tillagan vakti reiðiöldu meðal sagnfræðinga (hug- og félagsvísindafólks) og annarra sem nýta sér safnið til rannsókna- og fræðistarfa.

Hver er ábyrgur?

Þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) fer með völd yfir Borgarskjalasafni. Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir til að fá upplýsingar um rök fyrir niðurlagningu þess. Í svörum er vísað í skýrslu KPMG „Um starfsemi og fjárhag Borgarskjalasafns“ en í henni eru útlistuð ýmis rök. Skýrslan er á köflum bæði ófagleg og ótrúverðug enda liggur fyrir að þessa aðila skortir fagþekkingu á starfsemi héraðskjalsafna. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að KPMG hafi verið fengið skýrslugerðin til að mynda fjarlægð milli borgaryfirvalda og sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs og sjálfrar ákvörðunarinnar um niðurlagninguna. Vitað var fyrirfram að hávær mótmæli myndu heyrast við tíðindin.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins segir fullum fetum að þessi niðurstaða frá KPMG sé pöntuð af borgaryfirvöldum og sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Slíkt er ekki nýtt af nálinni. Greiningar- og matsfyrirtækjum eru gefnar ákveðnar forsendur til að vinna út frá sem leiða til fyrirfram gefinnar niðurstöðu. Ljóst er að KPMG hefur viðskiptahagsmuni af því að halda borgaryfirvöldum góðum. Komið hefur fram hjá starfsmönnum að safnið hafi ekki fengið umbeðnar fjárveitingar. Það hafi verið fjársvelt til að torvelda starfsemi þess og að lokum réttlæta lokun þess.

Í rauninni eru engin haldbær rök fyrir af hverju Borgarskjalasafn með alla sína miklu sögu og ábyrgð skuli lagt af. Meintur sparnaður við aðgerðina er stórlega ýktur í skýrslu KPMG sem byggir á gömlum og úreltum upplýsingum, svo sem áratuga gamalli greiningu á húsnæðisþörf sem var gerð fyrir tíma stafrænnar geymslu.

Borgarskjalavörður í ónáð

Spurningin sem eftir stendur er þess: Hvers vegna var tekin sú ákvörðun að fargar Borgarskjalasafni, sem hafði þjónað borgarbúum og borgarkerfinu í 70 ár? Tvennt kemur upp í hugann: Í fyrsta lagi virðist eins og meirihlutinn vilji ekki Borgarskjalasafn í hinu fína og dýra Grófarhúsi sem stendur til að umturna. Í öðru lagi er engu líkara en að meirihlutanum sé umhugað um að losa sig við Borgarskjalavörð.

Borgarskjalavörður hefur á löngum ferli sýnt framúrskarandi fagmennsku í starfi og hafði sem dæmi kjark og þor til að ráðast í frumkvæðisathugun í hinu svokallaða Braggamáli í óþökk meirihlutans. Þar kom fram að farið hafi verið á svig við lög. En getur verið að embættismanni sé refsað fyrir að sinna skyldu sinni á þann hátt sem að ofan greinir? Fleiri hafa bent á tengsl málefnis Braggans og niðurlagningu Borgarskjalasafns og er hér vitnað í pistil Björns Bjarnasonar fyrrum menntamálaráðherra dags. 18. febrúar 2023 með yfirskriftinni „Braggi lokar Borgarskjalasafni“, þar sem segir að:

„Nú réttum þremur árum frá því að sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs gagnrýndi safnið vegna frumkvæðis í Braggamálinu vilja hann og borgarstjóri bara loka Borgarskjalasafninu – helst með hraði og leynd. … Í Braggamálinu svonefnda fann Óskar Jörgen Sandholt sviðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs að því opinberlega að Borgarskjalavörður skyldi segja í athugun sinni að skjalameðferð vegna framkvæmda við Bragga í Nauthólsvík stæðist ekki lög um skjalavörslu og skjalastjórn.“

Hið eina rétta í stöðunni

Engin trygging er fyrir því að sparnaður verði við þennan gjörning ef horft er til þess að greiða þarf fyrir flutning, móttöku, vörslu og skjalahald sérhvers skjals yfir á Þjóðskjalasafn samkvæmt gjaldskrá. Ljóst er að flutningur gagna Safnsins yfir í Þjóðskjalasafns á eftir að kosta mikla fjármuni auk þessa að hinn menningarlegi skaði verður ómælanlegur. Það eina rétta er að hætta við að leggja niður Borgarskjalasafn og biðja alla þá sem orðið hafa fyrir skaða vegna þeirrar ákvörðunar afsökunar.