Borgarráð 12. september 2019

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundarráð, velferðarráð í samstarfi við ofbeldisvarnanefnd móti ný og fjölbreytt úrræði fyrir foreldra barna sem sýna árásargirni og ofbeldi.

Á aukafundi borgarstjórnar sl. þriðjudag var lögð fram aðgerðaráætlun borgarinnar gegn ofbeldi 2018 til 2020. Áætlunin er yfirgripsmikil en í hana vantar umfjöllun um börn sem beita önnur börn og stundum fullorðna þ.m.t. foreldra og kennara sína ofbeldi. Börn eru skilgreind börn til 18 ára aldurs. Hvaða áætlanir hefur borgin fyrir þessi börn og foreldra þeirra? Fyrir foreldra barna sem glíma við reiðistjórnunarvanda og beita ofbeldi þarf að vera greiður aðgangur að fjölbreyttu ráðgjafar- og meðferðarúrræði. Ef ekki tekst að stöðva ofbeldishegðun barna er hætta á að þau haldi áfram að beita ofbeldi sem unglingar og á fullorðinsárum. Úrræði sem þetta þarf að fela í sér stuðning og fræðslu fyrir foreldra. Haldi ofbeldishegðun áfram er mikilvægt að barnið eigi þess kost að sækja námskeið þar sem stuðst er við atferlismótandi kerfi sem er sniðið að þörfum barnsins, aldri og þroska. Námskeið af þessu tagi hafa verið í boði á vegum Þroska- og hegðunarmiðstöðvar og e.t.v. einnig á vegum borgarinnar en í þau er langur biðlisti. R19090127

Vísað til meðferðar ofbeldisvarnarnefndar.

Lögð fram  fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fyrirhugaðar götuþrengingar í borgarlandinu

Fyrir dyrum standa umfangsmiklar framkvæmdir í samgöngum. Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvort meirihlutinn hyggist vinna að frekari þrengingum gatna á næstunni svipuðum þeim á Hofsvallagötu og á Grensásvegi. Eins og vitað er hafa þrengingar verið afar umdeildar þar sem þær hafa leitt til enn meiri tafa á umferð. Borgarmeirihlutinn hefur ekki viljað ljá máls á úrlausnum og hefur t.d. vísað frá tillögu um snjallstýringu ljósa. Langar bílalestir sem rétt sniglast áfram eru ekki einungis ökumönnum til ama heldur öllum vegfarendum. Bílum í umferðinni fjölgar eins og nýjustu kannanir sýna. Ekki er endilega víst að borgarlína breyti því en áætlað er að uppbyggingu hennar ljúki um 2030-35. Almenningssamgöngur henta einungis broti af borgarbúum. Tímanna tvenna tekur að komast milli staða enda situr strætó fastur í umferðarteppum um alla borg. Óttast er að komið sé að þolmörkum. R19090128

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Tillaga Flokks fólksins að hraða uppsetningu hleðslustöðva sem fyrirhugað er að setja upp

Lagt er til að sá tími sem áætlaður er í að setja upp 90 viðbótar hleðslustöðvar verði styttur um helming og verði þær komnar upp innan eins og hálfs árs í stað þriggja ára. Komnar eru hlöður á nokkra staði í Reykjavík en betur má ef duga skal. Ljóst er að ef fólk getur ekki hlaðið rafbíla sína heima hjá sér og þarf að setja í samband við almenningshleðslur fælir það fólk frá að kaupa rafbíl en það mun tefja orkuskiptin. Það vantar hlöður í efri byggðir, t.d. Grafarvog og Breiðholt og reyndar miklu víðar. Þótt það séu hleðslustöðvar í hverfinu dugar það ekki ef aðeins er hægt að hlaða einn eða tvo rafbíla í einu. R19090129

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Tillaga Flokks fólksins að mæla þjónustustefnu borgarinnar

Lagt er til að mæla þjónustustefnu borgarinnar um ákveðna þætti. Til er stefna sem heitir Þjónustustefna borgarinnar en hún var samþykkt í nóvember 2016 og aðgerðaáætlun í september 2017. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að margt í stefnunni sé ekki framkvæmt eða fylgt eftir. Eina leiðin til að komast að því hvaða hlutum hennar er ekki fylgt eftir, er að mæla árangur þátta svo sem hversu fljótt er leyst úr erindum o.s.frv. Þjónustustefnan er með átta áttavita. Flokkur fólksins myndi sérstaklega vilja láta mæla a.m.k. helming þeirra ef ekki alla: Hér eru fjórir af átta áttavitum sem mikilvægt er að mæla: Við komum fram við viðskiptavini af virðingu. Við leitum lausna og leiða í þágu viðskiptavina. Við vísum engum erindum frá. Við sinnum viðskiptavinum fljótt og vel. Ef mæla á áttavitana með trúverðugum hætti þarf að spyrja notendur þjónustunnar. Þetta þarf að gera af hlutlausum aðila. Kannski er ekkert til sem heitir algert hlutleysi en í það minnsta þarf að fá til verksins einhverja sem hafa engar tengingar við borgina nema að taka við þóknuninni fyrir könnunina. Flokkur fólksins myndi t.d. vilja kanna hjá leigjendum Félagsbústaða hversu vel þeim finnst erindum sínum sinnt í ljósi nýlegra breytinga hjá fyrirtækinu að senda ógreiddar kröfur til innheimtu hjá lögfræðingum. R19090130

Vísað til meðferðar mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráðs.

Lögð fram fyrirspurn Flokks fólksins um hvert sé aðalmarkmiðið með að setja Miklubraut í stokk

Hvert er markmiðið skipulagsyfirvalda borgarinnar með að setja Miklabraut í stokk og hvað vinnst með því? Er gert ráð fyrir að aksturstíminn styttist eða er markmiðið aðallega að byggja meira t.d. á núverandi helgunarsvæði sem er meðfram götunni? Ef svo er, hvað er þá gert ráð fyrir miklu byggingarmagni? t.d. háhýsum? R19090131

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram fyrirspurn  Flokks fólksins um hvort skipulagsyfirvöld hafi nýtt sér vindgöng og líkön til að mæla áhrif bygginga á vindhreyfingu

Háhýsi er þekkt fyrir að geta dregið vind niður að jörðu og myndað vindsveipi. Flokkur fólksins spyr hvort borgin hafi nýtt sér vindgöng og líkön til að mæla áhrif bygginga á vindhreyfingu ? Ef ekki, sér borgin ekki ástæðu til að nýta líkantilraunir til mæla vindáhrif? Hefur einhvern tíma verið reynt að mæla, í vindgöngum, áhrif af mismunandi lagi húsa á vindhreyfingar. Hægt er með slíkum tilraunum að prófa mismunandi gerðir háhýsa í og mæla hversu mikil áhrif húsin hafa á vindstreymi og hægt er að mæla hvar vindar skella niður að jörð. Form háhýsa skipta máli, ef hús eru stölluð eða mjókka upp eru minni líkur á að vindurinn skelli niður. R19090132

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram fyrirspurn Flokks fólksins um hvað gera á við allt það metan sem Sorpa framleiðir þegar ný stöð er risin í Álfsnesi

Hjá SORPU er verið að auka nýtingu á lífrænum úrgangi. Meðal annars með sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Nýja stöð er verið að reisa í Álfsnesi. Það þýðir að meira metan verður til. Flokkur fólksins spyr: Hvað á að gera við allt þetta metan? Ef það verður ekki nýtt sem orkugjafi, á þá að stækka metanbálið í Álfsnesi? Í komandi orkuskiptum spyr Flokkur fólksins hvort ekki þarf að leggja áherslu á að borgin nýti þetta metan eða selji það? R19090140

Vísað til umsagnar hjá stjórn SORPU.

Lögð fram fyrirspurn  Flokks fólksins um frekari endurheimtingu á votlendi í borgarlandinu

Meirihlutanum er tíðrætt um endurheimt votlendis í borgarsvæðinu. Flokkur fólksins spyr: Eru einhver svæði til í borgarlandinu núna sem skipta máli í endurheimt votlendis. Hvorki munu Laugamýri eða Kringlumýri verða endurheimtar, né Vatnsmýrin, en lítill hluti hennar er enn votlendi og verður væntanlega áfram. Hvaða aðrar mýrar í borgarlandinu er hægt að endurheimta? Óskað er eftir að fá lista yfir þær ef eru?  R19090137

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Tillaga Flokks fólksins að farið verði kerfisbundið yfir viðbrögð grunnskóla Reykjavíkur við einelti

Flokkur fólksins leggur til að farið verði kerfisbundið yfir viðbrögð grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti með það að markmiði að kanna a) hvernig skólar sinna forvörnum og b) hver viðbrögð skólanna eru komi kvörtun um einelti. Markmiðið með kerfisbundinni yfirferð sem þessari er einnig að samræma hvorutveggja eftir því sem þurfa þykir þannig að allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis bæði hvað varðar forvarnir, viðbragðsáætlun og úrvinnsluferli. Flokkur fólksins leggur til að athugað verði sérstaklega hvort skólar í Reykjavík hafi þau verkfæri tiltæk og aðferðir, bæði almenn og sértæk til að geta tekið á móti og unnið með kvörtunarmál um einelti af öllum stærðargráðum með faglegum og skilvirkum hætti. Kanna þarf eftirfarandi sérstaklega: Er tilkynningareyðublað á heimasíðu? Er viðbragðsáætlun á heimasíðu? Er lýsing á úrvinnslu ferli kvörtunarmála aðgengileg á heimasíðu? Er upplýsingar á heimasíðu skólans hverjir sitja í eineltisteymi skólans? Er skýrt á heimasíðu hverjir taka við eineltiskvörtunum? R19090138

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við skólastjórnendur

Tillaga Flokks fólksins um að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við skólastjórnendur og almennt starfsfólk í ljósi nýútkominnar skýrslu Innri endurskoðana um úthlutun fjárhagsramma til skóla. Lagt er til af Flokki fólksins að skóla- og frístundarráð fundi með skólastjórnendum í Reykjavík. Markmiðið er að Skóla- og frístundarráð komist í betri tengsl við skólastjórnendur og fólkið á gólfinu og fái að heyra frá fyrstu hendi óskir þeirra og ábendingar um hvað betur má fara. Skýrsla Innri endurskoðunar gefur sterkar vísbendingar um að Skóla- og frístundarráð sé ekki og hafi ekki verið lengi í tengslum við skólanna. Of margir milliliðir eru milli skólastjórnenda, kennara, foreldra og barnanna annars vegar og stjórnvalds borgarinna í skólamálum hins vegar. Brúa þarf þetta bil og verður það aðeins gert ef Skóla- og frístundarráð fer í skólana með opnum huga og ræðir beint við stjórnendur, kennara og nemendur. Enda þótt fulltrúar allra skólahópa sitji fundir ráðsins er það ekki það sama og þau tengsl og tengingar sem hér eru lagðar til.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Lögð fram  fyrirspurn  Flokks fólksins um hver ákveður hvar skekkjumörk liggja þegar gerðar eru kostnaðaráætlanir 

Fyrirspurn vegna viðbótarverka í tengslum við Klettaskóla sem leiddi til að farið var fram úr kostnaðaráætlun. Viðbótarverkin eru tilkomin að sögn meirihlutans þar sem ekki var hægt að sjá öll verk fyrir er vörðuðu húsbúnað, lóð og húsnæði. Fram hefur komið í svari frá borginni að í þessari framkvæmd er um að ræða framúrkeyrslu að upphæð 348 m.kr. til hækkunar eða 9.7%. Fram kemur að það sé innan skekkjumarka áætlunargerðar. Spurt er: Hver og hvernig eru skekkjumörkin ákveðin og hverjar eru forsendurnar? R19090133

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Bókun Flokks fólksins við 8. lið fundargerðar ofbeldisvarnarnefndar frá 2. september 2019

Flokkur fólksins vill gera athugasemdir við dagskrá og fyrirkomulag sameiginlegs fundar borgarstjórnar og ofbeldisvarnarnefndar 10. september. Kynningar tóku megnið af fundinum sem aðeins var áætlaður um þrjá tíma. Tíminn sem borgarfulltrúar fengu til að ræða málið var afar takmarkaður. Þeim var skammtað þrjár mínútur á mann. Hér var um mikilvægt mál að ræða sem hefði þurft meiri umræðu. Á það skal minnt að fundir borgarstjórnar eru umræðuvettvangur og sá eini sem borgarfulltrúar hafa fyrir opnum tjöldum. Kynningar má lesa fyrir fundinn. Einnig er gerð athugasemd að ekki var leyft að senda inn bókanir á fundinum, „sagt að sé ekki hefð fyrir því“. Engu að síður hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins bókað á sambærilegum fundi með fjölmenningarráði.

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðar Sorpu frá 2. september

Fram kemur undir lið 1 í fundargerðinni að taka á lán, einn milljarð króna, til 15 ára til að mæta viðbótarkostnaði við byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi. Viðbótarkostnaðurinn er sagður tilkominn vegna mistaka/handvammar. Fyrir handvömmina eiga borgarbúar að greiða en enginn hjá SORPU mun ætla að axla ábyrgð. Því er mótmælt að seilast eigi í vasa borgarbúa til að greiða fyrir stjórnunarklúður SORPU og í framhaldinu á að láta eins og ekkert hafi í skorist. Svona vinnubrögð eru óásættanleg og ekki borgarbúum bjóðandi. Flokkur fólksins sættir sig ekki við skýringar sem hér eru lagðar fram og krefst þess að stjórnin axli á þessu ábyrgð. Finna þarf aðrar leiðir til að bæta fyrri skaðann en að senda notendum reikninginn.

Bókun Flokks fólksins undir lið  11.  fundargerðar skipulags- og samgönguráðs 11. september

Ekkert er fengið með lengingu gjaldskyldutímans og stækkun gjaldsvæðis annað en að fæla fólk sem kemur á bíl úr miðbænum. Sagt er að markmiðið sé „betri stýring umferðar, hagkvæmari nýting stæða og auknar tekjur.“ Þvert á móti er verið með þessu að fæla bílaeigendur frá því að koma í bæinn. Skilaboðin eru, „ekki koma í bæinn ef þú ætlar að koma á bílnum þínum“. Önnur rök eru: Hagkvæm nýting stæða? En málið er að nú þegar er slæm nýting stæða t.d. í bílahúsum. Hugnast ákveðnum hópum alls ekki að fara með bíl sinn inn í þau. Auknar tekjur eru önnur enn ein rökin meirihlutans? Varla verður mikið um auknar tekjur ef færri koma á bíl sínum í bæinn vegna ósanngjarnar stæðisgjaldtöku. Með þessu stefnir bærinn í enn einsleitari bæ þar sem ferðafólk og búendur hans fara um og kannski aðrir á tyllidögum. Þessi aðgerð mun leiða til frekari flótta fyrirtækja úr bænum og er nú nóg samt. Fara ætti í þveröfuga átt til að laða fólk í bæinn líka það fólk sem kemur á bílum. Hafa ætti bifreiðastæðaklukku sem hefur reynst afar vel víða og enga gjaldskyldu a.m.k. 2 tíma á daga í útistæðum og í bílastæðahúsum og gjaldfrjáls stæði í bílastæðahúsum á nóttum.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillagna að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir 2019 sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 22. ágúst 2019 og fært úr trúnaðarbók.

Flokkur fólksins vill aftur gera athugasemd við liðinn Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2019 vegna sömu atriða og 2018. Enn virðist ekki hægt að veita fegrunarviðurkenningu húsum utan ákveðins miðsvæðishrings. Hvað með hverfi eins og Skerjafjörð, Breiðholtið, Árbæ og Grafarvog? Flokkur fólksins telur mikilvægt að í hvert sinn sem borgin veitir viðurkenningu af hvers lags tagi skuli leitað vítt og breitt en ekki einblína á eitt svæði eða tvö. Á það skal bent að víða í úthverfum borgarinnar er verið að endurgera og endurnýja hús sem hefðu vel getað komið til greina við ákvörðun á fegrunarviðurkenningu borgarinnar. Vel mætti fjölga þessum viðurkenningum þar sem enginn kostnaður felst í því nema að kaupa blómavönd. Að veita svona viðurkenningu er hvatning fyrir fólk og ekki ætti endilega að leggja áherslu á að húsin hafi einhverja sérstaka sögu eða flokkist undir einhvern frægan byggingarstíl. Hugmynd Flokks fólksins sem hér er lögð fram í bókun er að velja mætti eitt hús í hverju hverfi til að veita viðurkenningu.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Miðflokksins um kostnað við Klettaskóla og ástæður vanáætlunar en verkefnið fór fram úr áætlun um rúmlega 300 milljónir 

Flokkur fólksins veltir fyrir sér öllum þessum viðbótarverkum í þessari framkvæmd sem leiddu til frávika í kostnaðaráætlun. Sagt er að það hafi ekki verið hægt að sjá þetta þetta fyrir. Í ljósi sögu borgarinnar sl. ár um framúrkeyrslur og vanáætlanir t.d. í braggaverkefninu, vitanum, mathöll og fleiri framkvæmdum virkar svona lagað tortryggileg. Varðandi viðbótarverkin er spurt hvort borgin hefði ekki geta sagt sér það strax að endurnýja þyrfti t.d. húsbúnaðinn og lóðina? Skortir ekki eitthvað á framsýni hér, að hugsa fram í tímann og sýna fyrirhyggju? Í þessari framkvæmd er um að ræða 348 m.kr. til hækkunar eða 9.7% sem er innan skekkjumarka áætlunargerðar. Spurning er hver ákveður skekkjumörkin og á hvaða forsendum? Flokkur fólksins fagnar annars öllum endurbætur í Klettaskóla enda löngu tímabærar og börn hafa allt of lengi stundað nám í afleitum aðstæðum. Viðbótarverk og frávik í kostnaðaráætlun er hins vegar ekki eitthvað sem hvorki kjörnum fulltrúum, embættismönnum eða starfsmönnum eiga að þykja vera í lagi.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgrstjóra, dags. 9 september 2019, að flutningi á halla og afgangi vegna ársins 2018:

Í kafla 3.4. Færsla fjárheimilda á milli ára kemur fram að rekstrarafgangur á sviði/stofnun færist á milli ára ef rekja má hann með skýrum hætti til góðrar fjármálastjórnunar. Flokki fólksins er umhugað um að hér sé ekki um hipsum haps aðferðir að ræða. Í skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til grunnskóla kemur fram að hjá skóla- og frístundasviði fá grunnskólar að halda afgangi sem nemur 2% af úthlutuðum fjárhagsramma en afgangur umfram þessi 2% rennur til sviðsins og þar með til að mæta halla þeirra sem höfðu ekki staðið sig jafn vel í rekstrinum. Óskað er skýringa á af hverju þetta gildir um grunnskólanna. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er umhugað um að gætt sé jafnræðis í þessu sem öðru. Almennt séð eru reglur um yfirfærslu fjárheimilda flóknar. Erfitt getur verið fyrir aðra þ.e. aðra en þá sem velkjast um í fjármálaumhverfi borgarinnar að átta sig á hinum og þessum skilyrðunum/reglum og meta sanngirni þeirra og faglegar forsendur. Einfaldleiki og gegnsæi skiptir máli í þessu sem öðru.