Borgarráð 13. ágúst 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 8. júlí 2020, til samgöngu og sveitarstjórnarráðherra varðandi nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug:

Kallað er eftir nýjum stað fyrir kennslu- og einkaflug. Segir í gögnum að aðilar séu sammála um að flytja núverandi flugstarfsemi af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan flugvöll í Hvassahrauni, reynist það vera góður kostur. Þótt staður kennslu og einkaflugs sé beinlínis ekki tengdur því hvort flugvöllurinn fari þaðan í framtíðinni þá liggur nú fyrir að næsta áratuginn eða svo mun flugvöllurinn vera áfram í Vatnsmýrinni. Hvort Hvassahraun sé vænlegur kostur er allsendis óvíst. Rannsóknir hafa tafist von úr viti. Af hverju liggur því núna svona mikið á að finna nýjan stað fyrir kennslu og einkaflug? Hvassahraun sem möguleg staðsetning fyrir flugvöll hefur verið lengi í umræðunni. Farið var að mæla veðurskilyrði þar fyrir um 2-3 árum en engar tilraunir í flugi, s.s. mælingar á kviku eða skýjahæð hafa verið gerðar. Óvissan um staðsetningu fyrir nýjan flugvöll er alger, gildir þá einu hvaða skoðanir fólk hefur á hvort völlurinn eigi að vera eða fara. Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkur ár þegar niðurstöður mælinga og flugtilrauna liggja fyrir. Að færa kennslu og einkaflug annað er ekkert akút mál og mun einungis kalla á útlát fjármuna sem ekki eru tímabær.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um COVID í tengslum við minnisblað slökkviliðsstjóra og framkvæmdastjóra almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, dags. 12. ágúst 2020, varðandi COVID-19 og aðgerðir sveitarfélaga:

Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort meirihluti borgarráðs hafi farið of geyst með ákvörðunum sem leiða til mannmargra viðburða og samkoma. Borgarráð, þeir sem þar ráða hefðu mátt vita eins og aðrir að það gæti komið bakslag vegna COVID sem síðan varð raunin. Borgar- og skipulagsyfirvöld verða að haga ákvörðunum sínum í samræmi við það. Fulltrúi Flokks fólksins nefndi þetta í einni af bókunum sínum á borgarráðsfundi 2. júlí og segir í þeirri bókun ennfremur að þegar líða tekur á árið liggi betur fyrir hvernig mál munu þróast. COVID er ekki búið og borgaryfirvöld verða að horfast í augu við það þegar sem dæmi boða á til umræðufunda vegna skipulagsmála. Í því COVID ástandi sem nú ríkir treysta sumir sér ekki út úr húsi. Hér þarf að gæta að jafnræði og sjá til þess að aðstæður séu með þeim hætti að allir hafi jöfn tækifæri á að mæta til slíkra funda til að geta látið skoðanir sínar í ljós um mál sem snúa beint að þeim sjálfum.

 

Bókun Flokks fólksins við  við svari menningar- og ferðamálasviðs, dags. 6. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um uppsetningu pálmatrjáa í Vogabyggð, sbr. 62. lið fundargerð borgarráðs frá 25. júní 2020:

Á fundi borgarráðs 25. júní lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um hvar umhverfismatið sem pálmaverkið sem setja átti upp í Vogabyggð er statt. Ekki hefur borist svar við því en fyrirspurninni var vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir svari við fyrirspurninni hið fyrsta og hefði það svar í raun átt að koma nú samhliða svari við fyrirspurn Miðflokksins um uppsetningu pálmatrjáa í Vogabyggð enda báðar fyrirspurnirnar lagðar fram á sama fundi. Ennþá er því beðið eftir svari við „fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um framvindu raunhæfismats á útilistaverki í Vogabyggð“. Aðrar fyrirspurnir voru: Hverjir koma að matinu. Hvert er ferlið við framkvæmd raunhæfismats og hvar er borgin stödd í því ferli? Hver annast framkvæmd raunhæfismatsins? Hvað veldur þeim töfum sem orðið hafa á framkvæmd raunhæfismatsins nú þegar meira en ár er liðið frá því ákvörðun um það var tekin í málinu? Hver er áætlaður kostnaður við framkvæmd raunhæfismatsins?

 

Bókun Flokks fólksins við  fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 12. ágúst 2020:

Af kynningu eigenda rafskútuleiga að dæma hefur orðið gríðarleg fjölgun á notkun rafskútna og rafhlaupahjóla. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af slysum sem hafa orðið á þessum hjólum og kunna að verða. Nú þegar hafa verið skráð nokkur slys. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þróuninni í ljósi reynslu annarra þjóða. Velta má fyrir sér hvort borgar- og skipulagsyfirvöld ásamt rafskútuleigum hafi unnið nægjanlega vel og mikið með samgöngustofu og lögreglu í þessum málum og gert allt sem hægt er að gera til að tryggja öryggi þeirra sem hjóla og annarra vegfarenda? Rafhjólin eru komin til að vera, ekki er um það deilt. Samkvæmt umferðarlögum á hjólreiðamaður eða sá sem er á rafmagnshlaupahjóli að víkja fyrir gangandi vegfarenda. Þá er hjálmaskylda fyrir alla undir 16 ára aldri. Borgaryfirvöld geta og eiga að hvetja til hjálmanotkunar allra notenda rafhlaupahjóla og venjulegra hjóla án tillits til aldurs. Bannað er að hjóla undir áhrifum áfengis. Borgaryfirvöldum ber að leggja alla áherslu á að upplýsa um þessar reglur og ítreka að þær skuli virtar. Enn skortir mikið á að innviðir séu tilbúnir til að taka við þessari miklu fjölgun rafskútna/hjóla. Spýta þarf í lófana í þeim efnum.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 19. júní:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að í stefnumótun Strætó hefur ákveðið að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína. Árið 2019 lagði Flokkur fólksins til að borgaryfirvöld samþykktu að innleiða heimsmarkmiðin með formlegum hætti í sína stefnu. Tillagan var felld. Borgaryfirvöld hefðu auðvitað átt að vera frumkvöðull hvað þetta varðar, draga vagninn og gera það með reisn eins og sum önnur sveitarfélög hafa gert. Að öðrum málum hjá fyrirtækinu er ekki hjá því komist að spyrja hvort hafa þurfi áhyggjur af fyrirtækinu og stjórnun þess? Strætó bs. hefur komist í fréttir tvisvar á afar stuttum tíma vegna sérkennilegra skilaboða um grímuskyldu eða ekki grímuskyldu og nú síðast vegna meints ölvunaraksturs strætóbílstjóra. Ef litið er til síðasta árs hafa fleiri erfið mál komið upp sem valdið hafa usla og sárindum hjá þjónustuþegum.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvernig miðar samgöngubótum í Grafarvogi í kjölfar lokunar Korpuskóla:

Fyrirspurn frá Flokki fólksins vegna loforðs um bættar samgöngur. Nú eru nokkrir mánuðir liðnir síðan Korpuskóla var lokað. Lofað var bættum samgöngum fyrir börnin þegar þau gengju til skóla í nærliggjandi hverfi borgarinnar. Nú er skólahald að hefjast að nýju. Hver er staðan á framkvæmdum fyrir undirgöngum eða öðrum úrræðum til öruggari samgangna fyrir börnin í hverfinu á leið til skóla?

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.