Skipulags- og samgönguráð 11. mars 2020

Fyrirspurnir áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, vegna búningsklefa Sundhallarinnar.
Mál nr. US200074

Sundhöll Reykjavíkur hefur verið í endurgerð og endurbyggingu og var nýr kvennaklefi byggður vegna þess að sá eldri þótt ekki viðunandi. Mörgum kvengestum Sundhallarinnar finnst staðsetning nýrra búningsklefa bagaleg þar sem ganga þarf frá klefum langa leið utandyra til að komast inn í Sundhöllina. Karlar hafa nú fengið klefa sína aftur endurgerða. Klefar kvenna eru enn í endurbyggingu sem lýkur á þessu ári en munu ekki vera ætlaðir konum til frambúðar heldur viðbót ef með þarf. Margir kvengestir vilja fá aftur aðgang að eldri búningsklefum þegar endurbótum þeirra er lokið. Þær sætta sig ekki við að hafa verið úthýst og að þurfa að ganga langar leiðir á blautum sundfötum, frá klefa að laug. Það stóð aldrei annað til en að karlar fengju sína gömlu klefa aftur. Flokkur fólksins veltir einnig fyrir sér hvort jafnréttisjónarmið kunni að hafa verið fótum troðið hér og hvort farið hafi verið á sveig við jafnréttislög? Fulltrúi Flokks Fólksins óskar eftir skýringu, af hverju kvennabúningsklefinn í Sundhöll Reykjavíkur var tekinn af konunum bæði á meðan klefarnir voru endurgerðir, en einnig til frambúðar? Af hverju konum var vísað úr sínum gömlu klefum en ekki körlum? Hvað hindrar það að konur fái aftur aðgang að klefunum, tilbúnum?

Tillaga Flokks fólksins um að metanbílar verði aftur teknir á lista yfir visthæfa bíla

Með nýjum reglum sem tóku gildi 1. janúar 2020 voru metanbílar teknir af lista vistvænna bíla og geta ökumenn ekki lagt gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Þetta er bagalegt og ekki til þess fallið að hvetja til orkuskipta. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur. Rök formanns skipulagsráðs voru að ekki væri hægt að tryggja að eigendur metanbíla aki á vistvæna orkugjafanum þegar þeir koma í bæinn og leggja í gjaldskyld stæði. Með þessum orðum er verið að gera lítið úr eigendum metanbíla. Það blasir við að sá sem kaupir sér metanbíl noti einungis bensín sem varaafl. Flokki fólksins finnst mikilvægt að allt sé gert til að flýta orkuskiptum og því fleiri sem sjái hag í að kaupa metanbíl því betra. Offramboð er á metani sem brennt er á báli í stórum stíl á söfnunarstað því Sorpu hefur mistekist að koma því á markað. Metan ætti að gefa eða selja á kostnaðarverði. Allt er betra en að sóa því. Væri metan selt á kostnaðarverði mundi hópur metanbíleigenda stækka hratt. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á mikilvægi orkuskipta. Það voru regin mistök að fjarlægja metanbíla af þessum lista.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, borgarlína, breyting á aðalskipulagi milli Ártúnshöfða og Hamraborgar:

Nú stendur til að hefja fyrstu áætlun um byggingu borgarlínu um Reykjavík og yfir í Kópavog. Flokkur fólksins er í sjálfum sér ekki á móti borgarlínu, en lýsir efasemdum um ágæti hennar vegna ört vaxandi tæknibreytinga sem gætu gert borgalínuna óþarfa þá loks hún verður tilbúin, því er beint þeim tilmælum að aðrir og ódýrar samgöngukostir verði skoðaðir af borginni en þessi rándýra framkvæmd. Hverjir eiga svo að not borgarlínuna? Við lestur umræddrar skýrslu virðist eins og aðeins sé gert ráð fyrir að hjólandi og gangandi borgarbúar noti borgarlínuna samt er litið til þess að bílum fækki. Lítum á dæmi: Gert er ráð fyrir að við stöðvar borgarlínu verði hjólastæði fyrir hjólreiðamenn sem vilja nýta borgarlínuna. Ekki er gert ráð fyrir bílastæðum svo bíleigendur geti nýtt sér borgarlínuna. Hvers vegna á ekki einmitt að höfða til þeirra sem vilja nota einkabílinn nánast í allar sínar ferðir? Það er alþekkt erlendis að við endastöðvar almenningslesta eru bílastæði fyrir bifreiðareigendur svo þeir sleppi að aka alla leið til vinnu, heldur nýti sér almennings samgöngur líkt og aðrir. Hvað varðar kolefnisjöfnuð þá má gera ráð fyrir að meirihluti bílaflotans verð knúinn vistvænni orku 2040. Verður því fækkun einkabílsins eins mikil og til er ætlast?

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hádegismóar, nýtt skipulag:

Til stendur að Bandalag íslenskra skáta fái til afnota reit í Hádegismóum til að reisa sínar bækistöðvar. Um er að ræða lítt snortna náttúru sunnan við Morgunblaðshöllina. Skátar á Íslandi eru þekktir fyrir jákvæða umgengni við náttúru landsins og eru víða með bækistöðvar sem eru bæði til prýði og hafa gefið mörgu ungmenninu tækifæri til að kynnast náttúru svæðanna betur, svo ekki sé minnst á þá jákvæðu starfsemi sem skátahreyfingin iðkar. Ef af verður að Skátahreyfingin reisi sínar bækistöðvar á Hádegismóum mælist Flokkur fólksins til að hönnuðir húsakynnanna taki tillit til náttúrunnar og geri þau þannig úr garði að allt falli vel að umhverfinu. Jafnframt má ætla að starfsemi Skátanna, svona rétt við Rauðavatn styrki þetta fallega útivistarsvæði í jaðri höfuðborgarinnar og gæði það enn meira lífi.