Borgarráð 14.febrúar 2019

Bókun Flokks fólksins lögð fram að gefnu tilefni á fundi borgarráðs vegna afskipta meirihlutans á efni bókanna hjá minnihlutanum

Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst fulltrúar meirihlutans oft hafa gengið allt of langt í að reyna að hafa áhrif á bókanir fulltrúa minnihlutans og gert það með alls kyns ráðum, bæði með því að gagnrýna efni bókanna harðlega og sýna hneykslun og jafnvel fyrirlitningu í öllu sínu viðmóti og jafnvel ákveðnu atferli í verstu tilfellum.  Borgarfulltrúi vill minna á að bókunarvald borgarfulltrúa er ríkt.  Bókanir eru alla vegna eins og gengur, vissulega stundum harðorðar enda málin mörg alvarleg eins dæmin hafa sýnt undanfarna mánuði. Upp úr kafinu hafa verið að koma mörg mál sem hafa ekki einungis misboðið minnihlutanum heldur einnig mörgum borgarbúum. Mörg þessara mála hafa verið efni frétta í fjölmiðlum ítrekað, á öllum fjölmiðlum, ríkisfjölmiðlum sem öðrum, á samfélagsmiðlum og í umræðunni almennt séð. Þar hefur málum verið lýst í smáatriðum með upplýsingum um nöfn í þeim tilfellum sem þau eru opinber. Í bókunum sem hér er vísað til er einungis verið að bóka um mál sem eru á dagskrá og í engu tilfelli er verið að upplýsa um neitt nýtt sem ekki hefur verið fjallað um opinberlega. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir kröfu um að meirihlutinn láti af afskiptum sínum hvað varðar efni bókana enda eiga þau þess kost að gagnbóka óski þau þess.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Ákvörðun Persónuverndar varðandi vinnslu persónuupplýsinga úr kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningar 26. maí 2018

Málið er háalvarlegt. Borgin braut lög. Upplýsingar um veigamikil atriði voru ekki send Persónuvernd er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Persónuverndar.  Í bréfi til unga fólksins var talað um að það væri skylda þeirra að kjósa ella væri lýðræðinu ógnað. Með þessum orðum er verið að leggja óþarfa ábyrgð á herðar ungs fólks. Eins og lýðræðið hvíli á þeirra herðum? Ef þeir mæta ekki til að kjósa er lýðræðinu ógnað? Hér er allt of sterkt tekið til orða og gætu einhverjum þótt sem fælist í  þessu einhvers konar þvingunarívaf. Fram kemur hjá Persónuvernd að rannsóknin var ekki til „að skilja lága og minnkandi kjörsókn ungs fólks“ enda skilaboðin gildishlaðin og röng.
Hópur eldri borgarana var aldrei hluti af þessari rannsókn. Engin rök eru fyrir að upplýsa konur yfir áttrætt um kosningarétt þeirra. Ef borgarfulltrúi reynir að setja sig í þessi spor þá virkar þetta allt að því niðurlægjandi.  Skýrsla Persónuverndar eru afgerandi og spyrja má hvernig snerta þessar niðurstöðu siðareglur og meðalhóf? Aðkoma sveitarfélags að könnun sem þessari rétt fyrir kosningar getur varla skilað trúverðugum niðurstöðum heldur skapar öllu heldur tortryggni. Rökin um almannahagsmuni í þessu sambandi passa illa hér enda ósennilegt að það sé almennur skilningur manna að hér séu almannahagsmunir í húfi.

Bókun Flokks fólksins vegna svars meirihlutans vegna fyrirspurnar Flokks fólksins um reglur og viðbrögð varðand  styrkveitingar

Flokkur fólksins telur að við veitingu verkefnastyrkja færi betur á því að greitt sé út samhliða verkframvindu og að lokagreiðsla sé greidd við verkefnislok. Þetta fyrirkomulag má sjá víða annars staðar t.d. hjá vísindasamfélaginu. Ef fyrirkomulag greiðslu er með þessum hætti eins og núna eru meiri líkur á að vafamál komi upp svo sem í þeim tilfellum þar sem ekki er ljóst hvort að verkefninu var að fullu lokið eða að framlag borgarinnar hafi verið notað í öðru skyni.

Tillaga um að borgin innleiði Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína með formlegum hætti og leggi sérstaklega áherslu á að fjallað verði um þau í leikskóla

Lagt er til að borgaryfirvöld samþykki að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem snúa að borgum og með formlegum hætti. Sérstaklega skal hugað að innleiðingu heimsmarkmiðana í allt leik- og grunnskólastarf borgarinnar. Heimsmarkmiðin eiga erindi til nemenda á öllum skólastigum og ekki síst til leikskólabarna.  Mikilvægt er að borgaryfirvöld samþykki að hefja markvissa vinnu að uppfærða börnin um Heimsmarkmiðin strax í leikskóla. Allt efni er hægt að fá að kostnaðarlausu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna og á netinu.  Grunnskólar eru hvattir til að  nýta sér þetta og að leggja áherslu á Heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Nú þegar ættu að vera komin veggspjöld með Heimsmarkmiðunum í alla skóla landsins, á öllum skólastigum. Hægt er að nýta veggspjöld til að gera markmiðin sýnilegri og þannig verði þau nýtt í auknum mæli til að leggja áherslu á mikilvægi hvers einasta heimsmarkmiðs enda eiga þau  erindi inn í alla okkar tilveru. Það er von Flokks fólksins að skólar finni fyrir hvata úr öllum áttum til að innleiða Heimsmarkmiðin og að sá hvati komi þá allra helst frá Reykjavíkurborg.

Greinargerð
Í þessari tillögu er lagt til að borgarstjórn samþykki að stefna borgarinnar samanstandi af  hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að setja starfseminni yfirmarkið og hvetja alla skóla borgarinnar til að innleiða þau í kennslu, starf og leiki með formlegum hætti. Eins og kveðið er á um í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á að vera skýrt í  stefnu borgarinnar að hlutverk hennar sé að tryggja lífsgæði íbúanna með góðri og fjölbreyttri þjónustu.  Grunnreglur eiga að miða að því að allir hafi tækifæri til áhrifa. Leggja skal áherslu á gott mannlíf, skilvirkan og ábyrgan rekstur ásamt öflugu atvinnulífi. Í framtíðarsýn felst að veita skal  framúrskarandi þjónustu þar sem hugsað er vel um líðan, heilsu og velferð íbúa á öllum aldri. Í Heimsmarkmiðunum er áhersla á að ákvarðanir skulu vera lýðræðislegar. Tryggja þarf að borgarbúar hafi fullt tækifæri til að hafa áhrif á eigin mál og eigið líf. Gildi og siðferði skal í öndvegi. Til að þessi hugmyndafræði skili sér sem best er mikilvægt að hefja innleiðingu strax í leikskóla. Með þeim hætti geta börnin byrja að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska. Þau eru framtíðin og koma til með að halda áfram þeim verkefnum sem hafin eru nú.