Borgarstjórn 20. nóvember 2018

Tillaga fyrir borgarstjórn  um að rými fyrir vímuefnaneytendur verði sett á laggirnar  í miðbænum

Lagt er til að komið verði á laggirnar rými í miðbænum þar vímuefnanotendur sem sprauta sig geta komið í hreint og öruggt athvarf og fengið hreinan sprautubúnað, aðgang að heilbrigðisþjónustu og jafnframt aðra aðhlynningu sem þeir þarfnast. Rými sem hér um ræðir yrði, ef til kæmi, er samstarfsverkefni Heilbrigðisráðuneytisins, Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Rauða krossins í Reykjavík. Heilbrigðisráðuneytið hefur eyrnamerkt 50 – 60 milljónir í uppsetningu á rými af þessu tagi fyrir vímuefnaneytendur í Reykjavík og er hlutverk Reykjavíkurborgar að finna húsnæði sem hentar starfseminni, innrétta húsnæðið og sjá um rekstur á húsnæðinu. Gott væri að gera það í samvinnu við Frú Ragnheiðar verkefnið hjá RkR, en starfsfólkið þar þekkir markhópinn vel og þarfir hans. 
Að svo stöddu er hópur af einstaklingum sem notar vímuefni í æð utandyra og á almenningsstöðum í Reykjavík. Þessi hópur hefur engan stað til að vera á og algert úrræðaleysi ríkir í málefnum þeirra. Mjög brýnt er að opnað verði rými í Reykjavík til að þjónusta þennan afar viðkvæma hóp, með skaðaminnkun og mannúð að leiðarljósi.

Greinargerð
SÁÁ og Rauði krossinn í Reykjavík áætlar að um 500-600 einstaklingar nota vímuefna í æð á hverjum tíma á Íslandi. Langflestir þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu, sér í lagi Reykjavík og eru hluti þeirra heimilislaus. Rými eða „neyslurými“ eins og það er oft kallað er skilgreint sem lagalega verndað rými þar sem einstaklingar sem nota vímuefni um æð geta komið og notað vímuefni á öruggan máta þar sem fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna er gætt. Í rýminu starfar sérhæft starfsfólk eða heilbrigðismenntaðir einstaklingar sem hafa það hlutverk að bregðast við bráðaaðstæðum ef þær skapast“. Rýmin eru skipulögð með þarfir markhópsins í huga og veita samþætta lágþröskuldaþjónustu. Jafnframt er lögð áhersla á að veita skjólstæðingum skaðaminnkandi samtöl, sálrænan stuðning og aðstoða skjólstæðinga við að komast í meðferðir og önnur úrræði inna heilbrigðis- og félagalega kerfisins.

Um 100 rými af þessu tagi eru starfrækt í heiminum í dag í yfir 10 löndum þar á meðal í Danmörku, Noregi, Þýskalandi, Kanada og Ástralíu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á marktækan árangur þeirra. Í dag er þetta úrræði hluti af gagnreyndum aðferðum þegar kemur að vímuefnavanda í heiminum. Ávinningur er samfélagslegur, fjárhagslegur og persónulegur. Samfélagslegi ávinningurinn er meðal annars sá að það verður minna af notuðum sprautum og nálum eftir á almenningsstöðum og á götum borga sem hafa þetta úrræði.

Fjárhagslegi ávinningurinn  er meðal annars fólgin í styttri innlögnum á sjúkrahúsum vegna þess að rýmin bjóða upp á heilbrigðisþjónustu og með henni er hægt að grípa mun fyrr inn í heilsufarsvanda fólks. Jafnframt er dregið úr nýgengi á HIV og lifrarbólgu C meðal þeirra sem nota vímuefni í æð. En árlegur kostnaður af HIV lyfjameðferð fyrir einn einstakling er um 2 milljónir á ári og lyfjameðferð fyrir einn einstakling í lifrarbólgu C meðferðinni (3 mánuðir) er um 6 milljónir.

Persónulegi ávinningurinn er fólgin í bættri líkamlegri og andlegri heilsu hjá einstaklingum en þeir einstaklingar sem eru í virkri vímuefnanotkun um æð eru yfirleitt bæði líkamlega og andlega veikari en þeir sem glíma við annars konar vímuefnavanda.

Hér á landi er talið að um 20-40 einstaklingar deyi árlega vegna efnaeitrana eða ofskömmtunar á vímuefnum. Slík tilfelli eru færri erlendis þar sem boðið er upp á aðstöðu sem þessa. Ástæðan fyrir því er að á staðnum er sérþjálfað starfsfólk sem grípur inn í og bjargar mannslífum. Erlendis er einnig gott samstarf við lögreglu og er lögreglan einn af helstu tilvísunaraðilum í rýmin í  Danmörku og Noregi. Það er sérlega mikilvægt fyrir lögregluna að geta vísað vímuefnanotendum í úrræði sem þjónustar þann hóp faglega.

Skaðaminnkunarúrræði eru tiltölulega ný á nálinni á Íslandi en með komu Frú Ragnheiðar, nálaskipta- og heilbrigðisþjónustu Rauða krossins í Reykjavík sem er á höfuðborgarsvæðinu, hafa orðið framfarir í lýðheilsu í samfélaginu og þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Ávinningurinn er mikill. Enn er þó þörf á frekari úrræðum fyrir þennan hóp. Akureyri hefur nú svarað kallinu þar sem nálaskiptaþjónustan Ungfrú Ragnheiður hóf störf í byrjun þessa árs og er á vegum Rauða krossins.

Húsnæðið
Mikilvægt er að staðsetning rýmis sem hér er rætt um sé þar sem flestir einstaklinganna í markhópnum eru. Rannsóknir sýna að einstaklingar telja það hindrun að þurfa að ferðast langar leiðir til að komast í aðstæður sem þessar. Því er mikilvægt að staðsetja rýmið miðsvæðis í Reykjavík, þar sem flestir í markhópnum halda sig og þar eru einnig langflest úrræði fyrir markhópinn. Jafnframt kom fram í rannsókn sem Svala Jóhannesdóttir (verkefnastýra Frú Ragnheiðar) gerði að flestir þátttakendur (n:47) vildu að rýmið yrði í  101 Reykjavík og þar næst á eftir kom 105 Reykjavík. Varðandi ákveðna staðsetningu í 101 Reykjavík, þá telur Rauði krossinn í Reykjavík að best væri að rýmið  yrði einhvers staðar á milli Gistiskýlisins og Konukots og ekki langt frá Hlemmi til að auðvelda aðgengið að úrræðinu fyrir þá sem eru ekki miðsvæðis.

Rauði krossinn í Reykjavík (RkR) telur það afar mikilvægt að úrræðið verði í sérhúsnæði. Í húsnæði þar sem önnur úrræði fyrir markhópinn eða heimilislausa einstaklinga verði ekki til staðar. Ástæðan fyrir því er að reyna að tryggja að allir innan markhópsins geti nýtt sér úrræðið. Reynslan úr Frú Ragnheiði hefur sýnt að hluti af markhópnum vill ekki nýta sér neyðarathvörfin (Gistiskýlið, Konukot) og vill heldur ekki vera nálægt þeim vegna þess að þau vilja ekki hitta gesti athvarfanna út af hinum ýmsu ástæðum. Einnig telur RkR mikilvægt að hugað verði sérstaklega að konum innan markhópsins og reynt að auðvelda þeim aðgengi að rýminu (áfallamiðuð- og kynjamiðuð nálgun). Í ljósi þess væri ekki vænlegt að hafa rýmið i húsnæði þar sem önnur starfsemi fyrir markhópinn væri eins og neyðargisting fyrir karlmenn eða dagsathvarf.

RkR telur að stærð húsnæðisins þyrfti að vera á milli 150-200 fermetrar og mikilvægt er að húsnæðið verði með aðgengi fyrir fatlaða einstaklinga. Varðandi frekari skipulag á húsnæðinu þá hefur RkR útlistað slíkt.

Tillagan var felld af meirihlutanum

Bókun Flokks fólksins við menntastefnu meirihlutans
Flokkur fólksins hefur áhyggjur af vaxandi vanlíðan barna í skólum og að ekki eigi að bregðast við biðlistum í úrræði eins og Klettaskóla sem er fullur. Það vekur ugg þessi  ofuráhersla að draga úr vægi greininga. Vísað í Breiðholtsmódelið þótt engin könnun liggi fyrir um álit foreldra á því módeli. Ítrekað er talað um snemmtæka íhlutun eins og hún eigi ekki að vera sjálfgefin. Það á alltaf að hlutast til í máli barna og gera það snemma og helst strax og vanlíðan verður ljós. En eitt útilokar ekki annað. Dæmin hafa sýnt m.a. annars úr Breiðholti að börn hafa útskrifast úr grunnskóla brotin á sálinni eftir áralanga vanlíðan í skólanum. Í mörgum málum var vissulega hlutast til en engin greining gerð. Flótti skólaráðsins frá greiningum bíður upp á hættur. Hér er verið að spara á röngum stað. Hætta er á að verið sé að veita barni ranga meðferð vegna þess að aldrei var kannað hver raunverulegur vandi þess er. Þetta er allt eins og að fara með veikt barn til læknis og veita því einhverja meðferð án þess að kanna upptök og orsök veikindanna.  Flokkur fólksins ákvað engu að síður að greiða atkvæði með menntastefnunni í þeirri von að ofangreind atriði yrðu tekin alvarlega til greina.

Bókun Flokks fólksins við tillögu um aukið framlag við SÁÁ
Við þurfum öll á SÁÁ að halda. Í sérhverri fjölskyldu er einhver alkóhólisti eða vímuefnaneytandi. Sjúkdómurinn snertir okkur öll. Flokkur fólksins vill t.d. auka þjónustu SÁÁ almennt en sérstaklega við börnin sem eru aðstandendur.
Mikilvægt er að öll börn sem vilja og geta nýtt sér þjónustuna fái aðstoð án tillits til hvort foreldri þeirra hafi farið í meðferð. Eins og staðan er núna fær hvert barn fær átta viðtöl; eitt viðtal í viku. Markmiðið með Sálfræðiþjónustu barna er að veita þeim viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldu þar sem áfengis- eða vímuefnavandi er til staðar og að hjálpa þeim að skilja betur eigin aðstæður og aðstæður aðstoða þau við að greina á milli sjúkdómsins og manneskjunnar sem þjáist af honum.
Með því að aðstoða barnið við að rjúfa þann þagnarmúr og einangrun sem einkennir oft börn í þessum aðstæðum er hægt að bæta líðan og velferð barnsins og auka um leið skilning þess á sjúkdómi foreldranna og afleiðingum hans. Með því getur barnið betur unnið úr eigin tilfinningalegri vanlíðan, styrkt sjálfsmynd sína og eflt félagsfærni. Reykjavíkurborg getur gert betur við SÁÁ þegar kemur að styrkjum og fundið fé í það með því að spara í stjórnsýslunni og hagræða hvar sem möguleiki er.