Skipulags- og samgönguráð 6. apríl 2022

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Hólmsheiði/Fjárborg/Almannadalur, breyting á deiliskipulagi

Hér er um að ræða breytingu á deiliskipulagi Hólmsheiði/Fjárborg/Almannadalur.
Allmargar athugasemdir eru við deiliskipulagstillöguna. Eftir því sem sýnist er tekið vel í þær flestar. Svo virðist sem skipulagsyfirvöld hafi ekki samband við þá sem senda inn athugasemdir eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst alla vega næst. Þeir sem það gera geta því aðeins vonað að tekið verði tillit til þeirra. Fyrir lesanda gagna er ekki gott að átta sig á hvað af þessum athugasemdum og frá hverjum hafa verið teknar til greina. Það væri gott ef þetta væri sett skýrar fram í gögnum með málinu.

 

Bókun Flokks fólksins við umsókn vegna breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 34-36 við Borgartún:

Um er að ræða lóðina Borgartún 34-36. Fækka á íbúðum um tvær. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort ráðlagt sé að setja svo margar íbúðir í eitt hús. Fordæmi er varla fyrir þessu í Reykjavík nema kannski má finna eitt dæmi. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þéttingarstefna meirihlutans ganga ansi langt hér og óttast þrengsl og umferðarvandamál.

 

Bókun Flokks fólksins við bókun fulltrúa í íbúaráði Miðborgar og Hlíða, um umferð stærri ökutækja í miðborginni:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir þessa bókun íbúaráðs Miðborgar og Hlíða að samráð vegna endurskoðunar á akstursfyrirkomulagi stærri ökutækja verði hafið aftur núna strax í vor. Einnig að tillögur liggi fyrir áður en meginþungi sumarumferðar ferðamanna hefst og að íbúaráð og íbúasamtök hafi aðkomu að samráðinu. Umferð stórra bíla í miðborginni þarf að vera í lágmarki að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis, dags. 25. mars 2022, um erindi Foreldrafélags Breiðagerðisskóla um kröfu um aukið umferðaröryggi við Breiðagerðisskóla:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir erindi Foreldrafélags Breiðagerðisskóla og bréf Íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis um að auka umferðaöryggi við Breiðagerðisskóla. Hraðahindranir eru oftast besta leiðin til að draga úr umferðarhraða. Alls staðar þar sem börn eru þarf að tryggja umferðaröryggi með öllum ráðum.

 

Bókun Flokks fólksins við Leiðarkerfisbreytingar strætó, kynning:

Nú er svo komið að Strætó bs. þarf að minnka þjónustutíma og þjónustustig Strætó vegna aðhaldsaðgerða í rekstri félagsins. Meðal annars þarf að draga úr tíðni dagferða á einhverjum leiðum og gera breytingar á kvöldferðum á fjölda leiða. Gert er ráð fyrir að með breytingunum sparist rúm¬lega 200 milljónir króna í rekstri en Strætó situr uppi með 454 milljóna króna halla. Tap síðustu tveggja ára nálgast milljarð. Í tilkynningu frá Strætó bs. segir að Covid-faraldurinn hafi leikið rekstur Strætó grátt og tekjur hafi minnkað um allt að 1,5 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Ekki er ein báran stök. Í miðju Covid eru teknar fjárfrekar ákvarðanir, fjárfest í nýju greiðslukerfi og fjölgað í flotanum með þeim afleiðingum að draga þarf úr þjónustunni. Það er margt skrýtið í rekstri Strætó bs. sem er byggðasamlag nokkurra sveitarfélaga og á Reykjavík stærsta hluta þess. Reksturinn er óvenjulegur því fátítt er að bæði stjórn og skipulagning þjónustunnar ásamt akstri vagna sé á sömu opinberu hendinni. Þetta kemur m.a. fram í nýlegri skýrslu sem VSB verkfræðistofa vann fyrir Strætó. Strætó sinnir báðum þessum hlutverkum í dag án nokkurra skila á milli mismunandi þátta rekstrarins, en fyrirtækið útvistar þó um helmingi af öllum akstri sínum til annarra.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um bætta þverun yfir Geirsgötu, umsögn:

illaga Flokks fólksins að þverun verði bætt frá Edition hótel og yfir Geirsgötuna vegna mikillar umferðar hefur verið vísað frá. Rökin eru þau að yfir Geirsgötu eru nú þrjár ljósastýrðar gönguþveranir í nágrenni Kolaportsins. Ein gönguþverun er við gatnamót Geirsgötu og Kalkofnsvegar, önnur gönguþverun er við gatnamót Geirsgötu og Reykjastrætis og þriðja gönguþverunin er til móts við Hafnarhúsið /Naustin. Segir í svari að á næstu vikum er gert ráð fyrir að ein ljósastýrð gönguþverun bætist jafnframt við á gatnamótum Steinbryggju, Bryggjugötu og Geirsgötu. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að þetta dugi til að tryggja öryggi vegfarenda.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu fyrirspurna  áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hraðahindranir, umsögn:

Hér er verið að svara meira en ársgamalli fyrirspurn. Ef horft er á hraðahindranir í Reykjavík þá eru þær alls konar, en samt er farið eftir norskum leiðbeiningum. Í íbúðagötum og nálægt skólum þarf að gæta alls umferðaröryggis. Þar eiga tafir rétt á sér enda öryggi barna númer eitt. Á stofnbrautum ætti að gera allt til að valda ekki óþarfa töfum. Ljósastýringar sem virka vel vantar víða. Óþarfa þrengingar mætti sleppa eins og á Grensásvegi og Háaleitisbraut. Af svari að dæma má sjá vandræðagang og er margt óljóst og loðið. Það er eins og borgin hafi engan heildstæða stefnu í hraðahindrunum. Það eru koddar, þrengingar, miðeyja, bungur, upphækkanir…

Í svari má víða sjá að hitt og þetta liggur ekki fyrir eða er óákveðið:„Skrifstofan vinnur nú að tillögu að umferðaröryggis aðgerðum ársins en fjöldi og staðsetning þeirra aðgerða liggur ekki fyrir að svo stöddu“. „Tillögur að umferðaröryggis aðgerðum ársins 2022 liggja ekki fyrir og ekki er búið að ákveða endanlega hvaða lausnir eða gerð hraðahindrana verður notast við“ og „Ekki liggur fyrir hversu stór hluti fyrirhugaðra umferðaröryggis aðgerða mun snúa að hraðahindrunum“. Sem sagt margt sem ekki liggur fyrir. Hvað með hraðamyndavélar sem valkost?

 

Bókun Flokks fólksins við svari og afgreiðslu fyrirspurna áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um álit umboðsmanns Alþingis um að hreyfihamlaðir megi leggja í almenn stæði á göngugötum, umsögn -:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um viðbrögð skipulags- og samgönguráðs við áliti umboðsmanns Alþingis um að hreyfihamlaðir megi leggja í almenn stæði á göngugötum? Svar/umsögn hefur borist og er lögð fram á fundi ráðsins 6.4. Það er ánægjulegt að verklag sé nú í samræmi við lög en eftir sem áður er það miður að borgin hafi ekki verið með framkvæmdina á hreinu og að það hafi þurft aðkomu Umboðsmanns Alþingis til að leiðrétta augljóst óréttlæti.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um bílastæði við Brávallagötu, umsögn:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir rökum skipulagsyfirvalda um að taka 12 bílastæði við Brávallagötu undir rafbílastæði án samráðs við íbúa. Framkvæmdir hófust án nokkurs samráðs eða samtals við íbúa. Rök eru fyrir þessum framkvæmdum en þau koma sumum illa svo sem eins og gengur.Í þessu tilfelli hefði átt að ræða við íbúa götunnar í stað þess að hefja verk án nokkurs samráðs. Fólk sem þarna býr þarf að leggja bílum sínum einhvers staðar og þarna eru mikil þrengsli. Þessi aðgerð sýnir alls enga lipurð. Þarna býr fólk með mismunandi efnahag og það er vitað að rafbílar eru enn í dýrari kantinum og ekki á færi allra að eignast. Í framtíðinni verða rafmagnsbílar eflaust algengir og kostur fyrir efnalítið fólk og þá má að aðlaga bílastæði að þeim veruleika að fullum krafti. Engu að síður er það kurteisi að tala við íbúa um mál af þessu tagi áður en ráðist er í framkvæmdir.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um yfirlit fyrirspurna og tillaga á kjörtímabilinu

Lögð fram að nýju svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram á fundi skipulags- og samgönguráðs 23. mars sl.:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir yfirlit yfir öll mál, tillögur og fyrirspurnir sem Flokkur fólksins hefur lagt fram í skipulags- og samgönguráði á kjörtímabilinu. Gott er að fá upplýsingar um hvað ef þessum málum eru afgreidd og þá hvenær og hvað mörg mála eru enn í ferli eða frestun.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um viðgerð á göngustíg, Mál nr. US220088:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í viðgerð á göngustíg sem liggur í gegnum Fellin frá Rjúpufelli að Yrsufelli. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið ábendingar um að þarna þarf viðhald og almenna hreinsun. Reynt hefur verið að vekja athygli borgarinnar á þessu en ekki tekist. Um er að ræða stíg sem liggur í gegnum eitt þéttbyggðasta svæði í Reykjavík. Það nota mjög margir þennan göngustíg og þarfnast hann viðgerðar og hreinsunar þegar sú tíðin er. Oft hefur verið glerbrot á stígnum, rusl og lauf á haustin. Líklegt þykir að þessi stígur hafi hreinlega gleymst hjá borginni því enginn kemur og sópar hann hvað þá lagfærir hann.

Frestað.