Skóla- og frístundaráð 26. apríl 2022

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjórans í Reykjavík, dags. 5. apríl 2022, um skil stýrihóps um forgangsröðun viðbygginga fyrir skóla- og frístundastarf:

Það eru fleiri skólar sem þurfa að fara í brýnan forgang en þeir sem þarna eru taldir upp og byrja á þeim verkefnum samhliða. Fulltrúi Flokks fólksins er sammála niðurstöðum greiningarinnar. Í Laugardal er mikil uppsöfnuð þörf en það er einnig í Hagaskóla þar sem myglumál er mjög alvarleg og skólinn sprunginn. Ef litið er til Laugarnesskóla þá er áætluð framtíðarþörf Laugarnesskóla að sinna aðeins 593 nemendum. Í skýrslu starfshóps um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi (sviðsmyndagreiningin) er gert ráð fyrir að í óbreyttri skólagerð verði nemendafjöldi Laugarnesskóla 683 nemendur árið 2030 og 686 nemendur árið 2040. Frávik í forsendum fyrir Laugalækjar- og Langholtsskóla eru minni. Fyrirhuguð áform um byggingu íbúða á þéttingarreitum í skólahverfi skólanna í Laugardal styðja forsendur í sviðsmyndagreiningunni og því telur fulltrúi Flokks fólksins líkur á að þessi framtíðarþörf sé vel vanmetin í skýrslu stýrihóps um forgangsröðun viðbygginga fyrir skóla- og frístundastarf. Nemendum Laugarnesskóla hefur fjölgað um 166 frá árinu 2008 og það stefnir að óbreyttu í að þeir verði 250 umfram þolmörk árið 2030. Í skýrslunni er ekki fjallað um mismunandi aðstöðu til kennslu í íþróttum eða verklegum greinum og getur það haft áhrif í þessum samanburði.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að farið verði í þróunar- og rannsóknarverkefni í grunnskólum borgarinnar til að efla lestur og bæta líðan barna með sérstaka áherslu á drengi:

Fram kemur að skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkir að farið verði í þróunar- og rannsóknarverkefni í grunnskólum borgarinnar til að efla lestur og bæta líðan barna með sérstaka áherslu á drengi. Um yrði að ræða sams konar þróunarverkefni og Vestmannaeyjabær hefur þegar ýtt úr vör þar sem megináherslan er á læsi, lestrarfærni, stærðfræði, náttúruvísindi og hreyfingu ásamt því að stundataflan er stokkuð upp. Í þessu sambandi má minnast á að í febrúar 2022 lagði fulltrúi Flokks fólksins einmitt fram fyrirspurn á þá leið hvort skóla- og frístundasvið hafi skoðað verkefnið Kveikjum Neistann með tilliti til mögulegrar innleiðingar á því í grunnskólum Reykjavíkur. Fram kom í svari að verkefnið hafi fengið skoðun. Má skilja sem svo að skóla- og frístundasvið hyggist skoða að innleiða verkefnið? Það væri góð ákvörðun. Kveikjum Neistann er verkefni sem er ætlað að efla skólastarf og bæta námsárangur. Verkefnið er 10 ára þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun í skólastarfið. Áherslur verkefnisins snúa að tengingu bóklegra greina og hreyfingar í tengslum við hugarfar nemenda. Þetta er áhersla sem ekki svo mikið hefur farið fyrir í reykvísku skólakerfi fram til þessa.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að  efla og laða fleiri tónlistarskóla til samstarfs við leik- og grunnskóla í þeim tilgangi að tónlistarnám barna verði hluti af skóladegi þeirra.

Mest um vert er að gera allt til að auka jöfnuð í þessu sambandi og að börn sitji við sama borð í þessum efnum þar sem nám í tónlistarskóla er fokdýrt. Það sem hlýtur að þurfa að gera er að færa tónlistarnám mun meira inn í skólana en nú er reyndin. Börn efnaminni og fátækra foreldra á að eiga þess jafnan kost og hvert annað barn að læra t.d. á píanó. Skólahljómsveitir hjálpa mikið. Þær eru sem stendur 4 og eru ca. um 120-130 börn í sveit. Það eru eitt eða tvö ár síðan þær voru stækkaðar. Á annað hundrað barna eru á biðlista eftir að komast í skólahljómsveit. Ef vel ætti að vera þyrftu að vera mun fleiri hljómsveitir og hvetja börn með markvissum hætti til að ganga í þær. Það kostar um 70 milljónir á ári að reka hljómsveit sem þessa og ætti það að vera vel viðráðanlegt að bæta við nokkrum ef tekið er á ýmsu bruðli og sóun sem finnst í borgarkerfinu.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. mars 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um afleysingastofu:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hver hefði verið árangur af Afleysingastofu sem er verkefni á vegum Reykjavíkurborgar þar sem einstaklingum gefst tækifæri til þess að skilgreina sjálfir sinn vinnutíma og vinna á þeim tíma sem þeir óska eftir. Afleysingastofa er góð hugmynd. Umfangið virðist hins vegar ekki mjög mikið eftir því sem hægt er að lesa úr svarinu nú þegar leikskólarnir eru vel mettir af tímavinnufólki. Skrifstofa sem þessi þarf að hafa skýran tilgang enda kostar að halda henni úti. Ekki er heldur not fyrir þessa skrifstofu af hálfu grunnskólanna. því Afleysingastofu hafa ekki borist margar beiðnir frá grunnskólunum. Raunin er sú að það eru ekki margir kennarar á skrá hjá Afleysingastofu, og þeir sem eru á skrá eru nú þegar í starfi. Fjölmargar skrifstofur hafa verið settar á laggirnar á þessu kjörtímabili með tilheyrandi kostnað. Til að hægt sé að réttlæta þær þarf að vera áþreifanleg þörf fyrir þær og skýrt að þær séu að þjóna mikilvægu hlutverki sem ekki verður unnið betur annars staðar eða vera hluti af öðru sviði/deild. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um hvað kostar að reka Afleysingastofu á ári en hefur ekki fengið svar.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. apríl 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Háteigsskóla.

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla, Hlíðaskóla og Vörðuskóla. Foreldrafélag Háteigsskóla stóð fyrir rafrænni könnun meðal foreldra og forráðamanna dagana 18.-24. janúar 2022. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við foreldra og svo virðist sem ekki sé mikið vitað um þessi mál, hvar þau eru stödd eða í hvaða ferli þau eru. Það er ekki nóg að kynna skýrslu. Í þessum málum er of mikill hægagangur og foreldrum og öðrum sem málið varðar er ekki haldið nægjanlega vel upplýsum. Hvenær verður sem dæmi þessi samantekt tilbúin og hvað er langt síðan foreldrar voru upplýstir um gang mála? Ekkert er sem dæmi að frétta af þessum sviðsmyndum. Er til dæmis búið að skoða nánar sviðsmynd IIV að húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð verði nýtt undir grunnskólastarf í hverfunum þremur? Það er mikil þörf á skólahúsnæði í hverfi 105 sem Hlíðaskóli og Háteigsskóli tilheyra. Þessi mál mega bara ekki drabbast niður á meðan farið er offari í þéttingarmálum. Halda þarf vel á spilunum ef ekki á að lenda með þessi mál í óefni og gæta þess að vera í nánu samstarfi við foreldra.