Reykjavík 23.9.2021.
Svör Flokks fólksins við spurningum aðgerðarhópsins “Aðför að heilsu kvenna”
1) Nú hefur allt ferlið varðandi leghálsskimanir verið í miklum ólestri eftir að ferlinu var breytt síðustu áramót og notendur þjónustunnar hafa verið illa upplýstir bæði um breytingaferlið og eins nýjar skimanaleiðbeiningar. Ekki síður hefur handavinna tafið til muna svör til kvenna og þar má bersýnilega sjá að mikið svigrúm er til mannlegra mistaka. Skimanaskráin er í lausu lofti og enginn veit hvort vinna er hafin við að forrita hana eða hvort þarfagreiningu sé yfirhöfuð lokið.
“Ætlar flokkur þinn að taka til hendinni í þessum málaflokki og þá með hvaða hætti?”
- Flokkur Fólksins vill taka til hendinni í þessum málaflokki þar sem ljóst er orðið að það voru grafalvarleg mistök að færa skimanirnar úr landi. Við sættum okkur ekki við að flokkspólítísk sjónarmið séu ofar almannahagsmunum og því síður það virðingarleysi gagnvart konum sem speglast í framangreindu bráðræði.
- Flokkur fólksins vill setja þetta mál í forgang. Brýnt er að hafa í fyrirrúmi velferð, öryggi og traust kvenna. Flokkur fólksins vill hlusta á raddir kvenna jafnt sem heilbrigðisstarfsmanna sem stigið hafa fram og lýst óviðunandi ástandi.
- Flokkur fólksins lætur heilbrigðismál sig miklu varða og gerir sér grein fyrir því að á bak við hvern sjúkling er fjöldi aðstandenda sem þarf að hlúa heildstætt að. Það snertir því heill og hagsmuni margra að koma þessu máli í viðunandi farveg að nýju og það sem allra fyrst.
- Það liggur ljóst fyrir að unnt er að framkvæma leghálsskimanir hérlendis svo að vel fari á. Hér eru tæki, mannafli og þekking. Flokkur fólksins telur að í ljósi reynslunnar og eftir að hafa hlustað á raddir fjölda kvenna, sé rétt að flytja þjónustuna hingað til lands hið fyrsta. Við leggjum áherslu á að skimanaskráin, sem byggð hefur verið upp á löngum tíma, fái nauðsynlega forritunaruppfærslu og að allar þarfagreiningar fari fram án þess að það bitni á konunum sjálfum.
- Þá vill Flokkur fólksins að farið verði í sérstakt kynningarátak til að ávinna traust kvenna á ný og vill nýta til þess ýmsar leiðir: aukna netfræðslu, útgáfu bæklinga en síðast en ekki síst að opna á samtal við hagsmunasamtök eins og s.s. „Aðför að heilsu kvenna“ „Kraft“ ofl. til að halda virkri hlustun við konurnar sjálfar.
- Flokkur fólksins telur nauðsynlegt að aðgengi sé einfalt og öruggt m.a. með útgáfu kynningarefnis auk íslenskunnar á ensku, pólsku og auðlesnu máli til þess að ná til viðkvæmra hópa í samfélaginu.
- Flokkur fólksins hefur fylgst með baráttu hópsins „Aðför að heilsu kvenna“ reynslusögum af óhóflega löngum biðtíma auk þeirra bréfasamskipta sem farið hafa fram við heilbrigðisráðuneytið.
- Flokkur fólksins telur að þegar allt er til tekið að þá hafi sú ákvörðun að færa skimanir úr landi verið mun kostnaðarsamari fyrir þjóðarbúið heldur en sá vænti „sparnaður“ sem lagt var upp með við breytinguna. Líta verður til þess tjóns sem þegar hefur bakast konum og fjölskyldum þeirra á þessu ári – svo ekki sé talað um framtíðarkostnað sem á eftir að koma fram t.d. í töpuðum vinnustundum og fórnarkostnaðinn vegna áfalla sem munu fylgja konum og aðstandendum þeirra á komandi árum.
- Flokkur fólksins vill tryggja að þessi mál séu strax tekin föstum tökum, á öllum stigum heilbrigðiskerfisins, að nægjanlegt fjármagn sé til staðar til að þessi mikilvægu mál séu unnin með hagsmuni kvenna á Íslandi að leiðarljosi. Að mati Flokks fólksins er hér um mikilvægt forgangsmál að ræða, sem snertir svo stóran hluta þjóðarinnar og þar á meðal jarðarhópa sem að minna mega sín, fátæka, fatlaða og konur af erlendum uppruna. Málið þolir enga bið.
2) Þegar kom að því að breyta kerfinu var horft til þess að bæta aðgengi svo sem með lægra verði og færa þjónustu í nærumhverfi kvenna. Gríðarleg óánægja hefur til dæmis verið í Vestmannaeyjum, þar sem konur þurfa að fara upp á land í brjóstaskimun.
“Hvað ætlar flokkurinn að gera til að þetta raungerist?”
- Flokkur fólksins leggur mikla áherslu á gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi fólks. Það er mikilvægt að bjóða uppá reglulegar skimanir bæði legháls- og brjóstaskimanir í heimabyggð. Það er reynsla fyrir því að svo hafi verið gert til fjölda ára. Flokkur fólksins vill að sú reynsla og þekking verði nýtt til þjónustu við konur bæði í Vestmannaeyjum og um land allt.
3) Borið hefur á því að konur sem vissulega sýna einkenni en falla utan viðmiðunartíma frá skimunarleiðbeiningum eigi erfitt með að fá eða fái hreinlega ekki sýnin sín rannsökuð. Enginn augljós farvegur virðist vera fyrir þennan hóp. Konur upplifa oft að þær séu álitnar hysterískar þegar þær sækja sér aðstoðar í heilbrigðiskerfinu og að ekki sé á þær hlustað né þær hafðar með í ráðum. Það má ætla að konur séu jú, stærstu hagsmunaaðilar þegar kemur að skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum því án þeirra eru engar skimanir.
“Hvernig munuð þið beita ykkur fyrir því að á konur sé hlustað, raddir þeirra heyrist og sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur?”
- Grundvallarstefna Flokks fólksins er að beita sér gegn hvers kyns misrétti sem viðgengst í íslensku samfélagi. Flokki fólksins finnst óásættanlegt að ekki hafi verið hlustað á konur í þessu tiltekna máli í tíð þessarar ríkisstjórnar og bendir á þá þversögn að við erum hér með góða mæðra- og ungbarnavernd þar sem konur eru markvisst þjálfaðar í því að hlusta á líkama sinn og barna sinna. Það er því hrópandi misrétti í landi sem vill vera þekkt fyrir jafnrétti að í reynd sé það aðeins í orði en ekki á borði í heilbrigðiskerfinu!
- Flokkur fólksins vill að núverandi viðmiðunartími skimunarleiðbeininga verði lagaður að þörfum kvenna með vísan til þess að það samtal sem á sér stað milli konunnar og hennar læknis vegi meira en fastmótaðar reglur embættisverks.
- Flokkur fólksins vill að konur á öllum aldri eigi að geta gengið að því sem vísu að til sé farvegur og tryggt sé að á þær sé hlustað og að þær fái vandaða skoðun og skimun óski þær eftir því.
Fólkið fyrst – svo allt hitt!